Mikill erill var á slysa- og bráðamóttöku FSA um helgina
Mikill erill var á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, FSA, um helgina en mikið var um að vera í bænum, m.a. N1
mótið í knattspyrnu á KA-svæðinu og Pollamótið á Þórs-svæðinu. Um 20 komur má rekja beint til þessara
viðburða. Sjúkraflutningamenn og læknar stóðu einnig í ströngu en eins og fram hefur komið í fréttum var farið í langt
sjúkraflug til Grænlands að sækja barn sem varð fyrir voðaskoti.
Þá kom ung kona á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis. Þrátt fyrir erilsama helgi tókst vel að sinna öllum þeim sem þurftu á þjónustu að halda. Þetta er sá tími ársins sem flestir starfsmenn eru í sumarleyfum og starfsemi sjúkrahússins tekur mið af því, segir á vef FSA.