Þessi góða aðsókn á fyrirlestur Kristins ber vott um þann mikla áhuga sem vaknað hefur á ullinni og þeim tækifærum sem hún býður upp á í framleiðslu. Eftir nám í Englandi hóf Kristinn störf við Gefjun þar sem hann hafði m.a. með höndum að blanda saman ullarhárum sauðkindanna til að búa til "sauðalitina" í ullargarni sem enn er notað í dag. Ennfremur hönnun á mynstri værðarvoða og margt fleira sem lítur að vinnslu og hönnun á ullarvörum. Kristinn á m.a. stóran þátt í hönnun á þeim varningi sem seldur var í vöruskiptum við Rússland og taldi milljónir af ullarvörum.
Að sama skapi hefur Iðnaðarsafnið á Akureyri fundið fyrir vaxandi áhuga gesta á þeirri innlendu iðnframleiðslu sem var á Akureyri og safnið gerir skil með sýningum sínum. Má því leiða líkum að því að landinn leiti aftur til fortíðar nú í breyttu þjóðfélagsástandi og að íslenskt hráefni, íslensk framleiðsla og vinnsla ýmiskonar veki meiri áhuga og sé litin öðrum augum en fyrri ár.
Fyrirlesturinn og sýningin eru á vegum Iðnaðarsafnsins á Akureyri með dyggum stuðningi Menningarráðs Eyþings. Iðnaðarsafnið geymir muni sem tengjast iðnaði og iðnframleiðslu liðinna tíma. Allt frá smjörlíkisgerðarvélum, prentvélum prjónavélum, ölgerðarvélum og rennibekkjum til saumavéla og áhalda til úrsmíða. Fjöldi tækja og véla úr verksmiðjunum sem notaðar voru til framleiðslu á vörum auk allskyns nytjahluta og iðnvarnings sem flestir þekkja. Safnið, sem staðsett er á Krókeyri, er fyrir alla fjölskylduna, það er opið alla daga frá kl. 13-17 og frítt fyrir 16 ára og yngri.