Mikið líf og fjör í Hlíðarfjalli

Það hefur verið mikið líf og fjör í Hlíðarfjalli að undanförnu, þar sem aðkomufólk hefur verið í miklum meirihluta en þessa dagana eru árleg vetrarfrí í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Heimamenn hafa einnig fjölmennt í fjallið og í vikunni var skíðadagur Samherja haldinn í annað sinn í vikunni. Yfir 200 manns, starfsmenn og fjölskyldur þeirra fóru saman á skíði, bretti eða sleða og skemmtu sér konunglega.  

Þá var grillað ofan í mannskapinn og má segja að útivistin hafi aukið matarlystina til muna því veitingarnar runnu vel niður. Nýliðar á öllum aldri gátu fengið lánaðan búnað og leiðsögn og stóð dagskráin frá kl. 16.30 til kl. 20.00. Grillveislan var við nýja nestishúsið á skaflinum við hótelið, þar stóðu fulltrúar Skíðafélags Akureyrar og reiddu fram kærkomna næringu fyrir útivistargarpana. Veðrið lék við fólkið á þessum mjög svo ánægjulega eftirmiðdegi og gleði skein úr öllum andlitum, segir á vef Samherja.

Nýjast