Ari Þór segir að mikið sé að gera á verkstæðinu, fólk komi t.d. í meira mæli en áður með eldri bíla og vilji halda þeim við. Áður hafi eigendur eldri bíla verið tilbúnir að fara með þá fyrr til förgunar. „Við fáum til okkar mun meira af eldri og ódýrari bílum en áður, greinilega passar fólk betur upp á eigur sínar, það ætlar að eiga bílana áfram og verður að hafa þá í þokkalegu standi," segir Ari Þór. Hann bætir við að t.d. í sumar hafi minna en áður verið um að bílar fólks biluðu í ferðalögum víða um land, sem þýði að fólk hafi hugað vel að ástandi þeirra áður en lagt var af stað. „Við erum sáttir, það er engin kreppa í bílaviðgerðum og ástæða til að vera bara bjartsýnn á framhaldið," segir hann, en það sem þó setji strik í reikninginn sé oft og tíðum hátt verð á varahlutum, en frá hruni fyrir réttu ári hafi þeir hækkað um tugi prósenta.
Margir geta ekki losnað við bíla sína
Gunnar Helgi segir að það sé nokkuð ljóst að margir bifreiðaeigendur ætli ekki og geti ekki endurnýjað bíla sína, „það eru hreinar línur að margir geta ekki losnað við bílana sína, þeir sjá fram á að sitja upp með þá og hugsa því betur en ella um viðhald þeirra," segir hann. Gunnar Helgi segist verða meira var en áður við að fólk spyrjist fyrir um hvað hlutirnir kosti og greinilega hafi almenningur minna fé handa á milli en áður. Þá séu margir í biðstöðu, áður en menn fari út í stórar fjárfestingar ætli þeir að sjá hver framvinda mála verður í þjóðfélaginu og til hvaða ráða verði gripið gagnvart skuldugu fólki. „Menn þora í raun ekki að fara út í miklar fjárfestingar, t.d. að kaupa dýra bíla, fólk ekur áfram um á þeim bílum sem það á og hyggst gera það áfram svo þá þýðir ekki annað en að halda þeim við," segir Gunnar Helgi.