„Mér hefði fundist eðlilegra að bíða eftir kalli kirkjunnar“

Húsavíkurkirkja. mynd/epe
Húsavíkurkirkja. mynd/epe

Sveitarstjórn Norðurþings tók nýverið umræðu um brýna viðhaldsþörf Húsavíkurkirkju sem fjallað hefur verið um að undanförnu. Mikill fúi hefur fundist víða í burðarviki kirkjunnar, krossum og skrautlistum. Þá er safnaðarheimilið, Bjarnahús einnig í mikill þörf fyrir viðhaldsframkvæmdir.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri sagði að honum þætti eðlilegt að sveitastjórn ætti strax fyrsta samtal um aðkomu að úrbótum. „Enda þótt formlegri lögsögu í málinu sé ekki að dreifa þá tel ég mig tala fyrir munn sveitarstjórnar allra þegar ég segi að okkur þyki öllum afar vænt um kirkjuna og þá táknmynd sem hún er fyrir Húsavík. Því tel ég rétt að fá fram sjónarmið sem sveitarstjórnarmenn kunna að hafa um þessa stöðu og í framhaldinu óska eftir formlegu samtali við sóknarnefnd um framhaldið,“ sagði Kristján og bætti við að hann væri þess fullviss að ýmis tækifæri kunni að leynast í umhverfinu sem auðvelda mögulega kostun þeirra umfangsmiklu viðhaldsframkvæmda sem lýst hefur verið.

Sveitarstjóri lagði það til við sveitarstjórn að fulltrúum sóknarnefndar verði boðið til fundar við byggðarráð þar sem frekari upplýsinga verður aflað og fletir að aðkomu Norðurþings verði ræddir. Tillagan var samþykkt samhljóða

Hjálmar Bogi Hafliðason fulltrúi B-lista tók undir með Kristjáni  að Húsvíkurkirkja væri vissulega táknmynd bæjarins en lagði áherslu á að ríkið sinnti sinni skyldu í málinu áður en sveitarstjórn tæki við boltanum. „Það er mikilvægt að kanna ástand kirkjunnar enda er ekkert vitað um hvaða upphæðir er að ræða,“ sagði Hjálmar og benti enn fremur á að  kirkjan hefði verið ómáluð til ársins 1924 og hafi verið friður árið 1982 en Húsavíkurkirkja var vígð árið 1907.

„Mér hefði fundist eðlilegra að bíða eftir kalli kirkjunnar heldur en að taka þetta beint upp hér á sveitarstjórnarfundi,“ sagði Hjálmar í umræðum um málið og lagði á það á það áherslu að ríkið væri eigandi kirkjunnar og bæri að halda henni við. „Við eigum nú nóg með okkar húsnæði og viðhald á því. Enn fremur bendir Hjálmar á að það séu fleiri kirkjur í sveitarfélaginu sem eru friðaðar, allar i eigu ríkisins og margar í slæmu ásigkomulagi. Hann segir ekki skynsamlegt að opna á þetta mál innan sveitarstjórnar nema með þeim hætti að þrýsta á ríkið að sinna sínum fasteignum.

Kristján tók undir með Hjálmari Boga að eigendur þessara mannvirkja, í þessu tilfelli ríkið bæri skylda til að halda sínum eignum við. Hann sagði líka að það væru uppi ýmis sjónarmið um það hvernig sveitarfélög ættu að stíga inn í mál af þessu tagi en ítrekaði að eðlilegt væri að taka umræðu um málið og hvernig aðkoma sveitarfélagsins mögulega yrði.

Sóknarnefnd hefur ákveðið að stofnað verði til hollvinasamtaka til að standa straum af kostnaði við viðhald kirkjunnar en í samtali við Helgu Kristinsdóttur, formann sóknarnefndar sagði hún að málið sé í vinnslu og stefnt sé að fundi í byrjun mars þar sem stofnað verði til stuðningssamtakanna.

Helga segist hafa orðið vör við mikil og góð viðbrögð úti í samfélaginu í kjölfar umfjöllunar um viðhaldsþörf kirkjunnar. Hún segist fagna áhuga sveitarstjórnar á að koma að málum en fundur með byggðarráði Norðurþings er fyrirhugaður í byrjun mars.

 


Nýjast