Menningarráðið leggur jafnan áherslu á að þau verkefni sem hljóta styrki efli á einhvern hátt samstarf og/eða samvinnu í menningarmálum á Norðurlandi eystra eða dragi fram menningaleg sérkenni svæðisins. Að þessu sinni bárust Menningarráðinu alls 119 umsóknir um rúmar 60 milljónir en úthlutað var samtals 20 milljónum króna til 63 verkefna. Tvö verkefni sem ekki náðist að framkvæma síðastliðið ár hafa sótt um endurúthlutun til menningarráðs og fá nú úthlutað að nýju. Það eru verkefnið Minnisvarði um Kristján frá Djúpalæk og Sögusetur Bakkabræðra. Útgerðaminjasafnið á Grenivík fær styrk til tveggja verkefna. Annars vegar til að halda málþing um línuútgerð og hinsvegar til að gera fræðsluefni um línuútgerð fyrir börn. Samstarfshópur um þingeyska minjagripaframleiðslu fær styrk til að ljúka verkefninu Þingeysk og þjóðleg minjagripaframleiðsla sem er samstarfsverkefni þriggja handverkshópa í Þingeyjarsýslum og Myndlistarskólans á Akureyri. Kirkjulistavika hefur verið haldin annað hvert ár síðan 1989. Dagskrá vikunnar er afar fjölbreytt og snertir margar listgreinar. Markmið Kirkjulistaviku er að efla menningarstarfsemi og auðga menningarlíf á Norðurlandi.
Á þessu ári eru 120 ár liðin frá fæðingu Björgvins Guðmundssonar tónskálds. Björgvinsfélagið fær styrk til að setja upp sögusýningu um skáldið. Sýningin verður sett upp á Akureyri og Austurlandi. Á haustdögum verður sett upp dagskrá um listmálarann og dægurlagahöfundinn Freymóð Jóhannsson betur þekktan sem 12. september. Sýndar verða teikningar eftir Freymóð sem og verður tónlist hans flutt. Svarfdælskur mars í samvinnu við aðila í byggðalaginu fær styrk til að hefja umfjöllun um alþýðulistamenn í Dalvíkurbyggð. Haldin verður dagskrá þar sem kynntir verða þeir alþýðulistamenn, gengnir, sem þekktir eru og eru úr byggðarlaginu. Sérstök áhersla nú verður á Brimar sem skildi eftir sig mikinn fjölda myndverka þ.m.t. um eitt hundrað verk sem sveitarfélaginu voru gefin eftir að hann lést fyrir aldur fram. Skúli Gautason fær styrk til að vinna leikgerð á Óvinafagnaði eftir Einar Kárason. Leiklestur á verkinu verður sviðsettur í Verksmiðjunni á Hjalteyri síðsumars. Langanesbyggð og Menningarmiðstöð Þingeyinga fá styrk til að halda rithöfundakvöld á fjórum stöðum í Þingeyjarsýslum. Áhugahópur um minningu rithöfundarins Jóns Trausta fær styrk til að vera með dagskrá tileinkaða ævi og verkum Jóns Trausta. Gengið verður um Öxarfjarðaheiði á söguslóðir Höllu og Heiðarbýlisins síðan verður menningardagskrá í Svalbarðsskóla í Þistilfirði.
Í Fnjóskadal hefur verið stofnað félag um „Gamla barnaskólann" að Skógum. Markmiðið með félaginu er að varðveita menningar- og sögulegt gildi Gamla barnaskólans en hann hefur hýst ýmsa menningarstarfsemi í sveitarfélaginu gegnum árin. Félagið fær styrk til að gera sýningu um sögu hússins. Í Þistilfirði er verið að koma á fót Þjóðdanshóp. Hópurinn fær styrk til að koma á samstarfi við Vefarann í Eyjafirði um námskeiðahald í Þjóðdönsum í Þistilfirði. Kvenfélagið Baugur í Grímsey fær tvo verkefnastyrki. Annarsvegar til að halda námskeið í skapandi starfi fyrir ungt fólk í eyjunni og hinsvegar til að halda Grímseyjardaginn nú í lok maí. Dagurinn byggist á gömlum hefðum og sérkennum eyjarinnar og verður haldinn árlega í lok maí eða á þeim árstíma meðan eggjatínsla er möguleg í eynni. Tilgangur hátíðarinnar er að vekja athygli á eynni, halda gömlum hefðum í hávegi, tengja þær ferðaþjónustu og vinna að því að þær skapi tekjur fyrir þá sem fyrir þeim standa.
Sail Húsavík 2011 í samvinnu við Kraðak fær styrk vegna leikþátta sem hafa vinnuheitið „Let´s walk local" byggða á siglingum og strandmenningu. Ekki er um hefðbundna leiksýningu að ræða heldur mun sýningin ferðast um hafnarsvæðið og nágrennið og um leið segja söguna. Segja má að þetta sé lifandi leiðsögn og leiðsögumaðurinn verður persóna frá landnámstímanum sem mun eiga virk samskipti við áhorfendur. Sail Húsavík 2011 fær einnig styrk í opnunardagskrá hátíðarinnar. Hið Þingeyska fornleifafélag fær styrk til tveggja verkefna. Fimm fimmtudaga í sumar ætlar fornleifafélagið að vera með leiðsagðar göngur á uppgraftrastaði í undir heitinu fornir fimmtudagar í samvinnu við fornleifafræðinga á svæðinu. Einnig fær fornleifafélagið styrk til að halda málþing Litlu Núpa í Aðaldal en þar hafa verið stundaðar rannsóknir undanfarin ári og m.a. fannst þar bátskuml árið 2007, hið fyrsta í rétt um hálfa öld.
Anna Richardsdóttir fær styrk til tveggja verkefna. Undanfarna mánuði hefur hún ásamt fjölskyldu sinni verið á Kúbu að nema dans og tónlist Í verkefninu Dansert II mun Anna ásamt börnum sínum heimsækja þrjá staði og kynna afrakstur ferðarinnar í gegnum sögur af Gyðjum. Einnig fær Anna styrk í verkefnið Sögur gegnum gyðjur. Hugmyndin er að samtvinna gyðjur þriggja heimshorna: Kúbu, Mesopótamíu og Íslands með dansi, hreyfingu, tónlist, myndlist og vitneskju um trúarbrögðin frá þessum þremur svæðum. Aðalgyðjurnar þrjár sem unnið verður útfrá eru Freyja úr norrænu goðafræðinni, Inanna sem er gyðja úr 4000 ára gömlum ljóðum frá Mesopótamíu og Yemaja, móðurgyðjunni frá Kúbu.
Eitt meginmarkmið Barokksmiðjunnar er að auka áhuga á tónlist tímabilsins frá því um 1600 til um 1750. Þetta vill smiðjan gera meðal annars með því að halda námskeið fyrir söngvara og hljóðfæraleikara þar sem farið verður yfir einkenni þessarar tónlistar og þau atriði sem þarf að hafa í huga við flutning hennar. En nokkuð önnur tækni er notuð við flutning þessarar tónlistar, áherslur aðrar og mismunandi sérkenni er einnig að finna milli landa eða svæða eftir því hvar tónlistin var samin. Barokksmiðja Hólastiftis fær styrk til að halda námskeið í flutningi barokktónlistar í samvinnu við Sumartónleika í Skálholti.
Myndlistarfélagið fær styrk til tveggja verkefna. Á Akureyrarvöku mun félagið setja upp sýningu um Rauða húsið og þá starfsemi sem þar var. Í Rauða húsinu vour haldnar róttækar listsýningar auk þess stóð Rauða húsið fyrir útgáfu á bókum og öðru efni er tengdist listsköpun. Tímabil Rúðahússins hafði mótandi áhrif á myndlist á Akureyri og því sannarlega komin tími til að rifja upp þetta litríka og tímabil í sögu myndlistar á Akureyri. Myndlistarfélagið fær einnig styrk til að halda smiðjur fyrir börn sem unnar verða í samvinnu við Listasafnið, Listasumar og Leikfangasafnið í Friðbjarnarhúsi. Smiðjan mun auk þess leggja áherslu á að kynna fyrir nemendum helstu listaverk í nánasta umhverfi og fræðslu um þá listamenn sem gerðu sem og sögu myndlistar á Akureyri og starfandi listamenn á Akureyri með t.d. heimsóknum á vinnustofur þeirra. Við styrkjunum tekur Brynhildur Kristinsdóttir formaður Myndlistarfélagsins.
Guðbjörg Ringsted fær styrk verefnið „Í norður" þar ætlar hún að útvíkka leikfangasýninguna í Friðbjarnarhúsi og setja upp litlar sýningar í Hrísey og á Dalvík í samvinnu við heimamenn. Söfnin Eyjafirði fá styrk til að halda Eyfirska safnadaginn í byrjun maí en hann er samstarfsverkefni allra safna á svæðinu. Dansfélagið Vefarinn hyggst standa fyrir dansveislu í Eyjafirði í júlí 2011. Gestir Vefarans verða tveir norrænir danshópar, annar frá Danmörku og hinn frá Noregi. Dansað verður á þremur stöðum við Eyjafjörð. Laufási, Ráðhústorginu á Akureyri og á Þjóðlagahátíð á Siglufirði.
Hjálmar Stefán Brynjólfsson fær styrk í verkefnið „Nú á ég hvergi heima" Verkefnið er lokahluti margmiðlunarþríleiks sem snertir bókmenntir og bókmenningu á Norðurlandi. Í þessum síðasta hluta þríleiksins er unnið áfram á mörkum bókmenningar/bókmennta og margmiðlunar, þannig að bókmenntir eru teknar út fyrir textann og í vinnanlegt form fyrir áhorfanda eða áheyranda. Á sýningunni er unnið með Norðurland, líkt og heiti hennar vísar í, en titillinn er tekinn úr þekktri stöku eftir Kristján Jónsson fjallaskáld. Að þessu sinni er það hins vegar Norðurland úr fjarska, hið horfna Norðurland, Norðurland eftirvæntingarinnar. Frón tónlistarfélag er í samvinnu við sveitarfélög á starfssvæði Eyþings um tónleikahald. Félagið fær styrk í vetrardagskrána. Nú í sumar opnar Ljóðasetur Íslands á Siglufirði. Félag um ljóðasetur fær styrk í opnunardagskrá setursins.
Á undanförnum árum hefur Sveitarfélagið Langanesbyggð verið að efla skapandi starf fyrir börn í sveitarfélaginu. Í sumar verður haldið sirkusnámskeið í vinnuskóla langanesbyggðar leiðbeinendur verða bræðurnir Ívar og Viktor Hollanders sem hafa leitt Sirkus Artika sem hefur verið starfandi á Akureyri um nokkurt skeið. Svava Björk Ólafsdóttir og Jóhanna Guðný Birnudóttir fá styrk í verkefnið Gjörningur í Lystigarðinum. Markmið með verkefninu er að leiða saman skapandi fólk undir stjórn umsækjenda fólk sem hefur reynslu af vinnu við gjörninga og því tækifæri til að skrifa, hanna, þróa, leika, syngja, sauma, mála, smíða og á endanum skipuleggja framkvæmd á gjörningi sem sýndur verður í Lystigarðinum á Akureyri við setningu Akureyrarvöku.
Síldarminjasafn Íslands hefur um skeið verið í samstarfi Bátaverndunarmiðstöð Norður Noregs í Grantangen með það að markmiði að endurheimta fornar þekkingar á smíði tréskipa með áherslu á litla árabáta. Síldarminjasafnið fær styrk til verkefnisins. Aðalheiður Eysteinsdóttir heldur áfram með sýningarröðina „Réttardagur 50 sýninga röð" Nú þegar hafa verið settar upp 29 sýningar í verkefninu, þar af 17 á starfssvæði Eyþings. Sýningarnar fjalla allar á einn eða annan hátt um íslensku sauðkindina og þá fjölþættu menningu sem skapast um og af búskapnum. Iðnaðarsafnið fær styrk til verkefnisins „Konur í iðnaði á Akureyri" Setja á upp sýningu um konur í iðnaði á Akureyri sem byggist á rannsókn sem gerð var á síðasta ári. Sýningin verður hönnuð sem farandsýning. Mozart á moldargólfi, Schubert í sauðskinsskóm, Lizt í lopapeysu, Händel með hangikjöti og Lully lundabaggi. Þetta eru brot af hugmyndum sem túlkaðar verða á í verkefninu Fótstigið og fiðla sem er samstarfsverkefni Eyþórs Inga Jónssonar og Láru Sóleyjar Jóhannsdóttir. Á tónleikunum verður erlend tónlist framreidd af íslenskum alþýðu sið í bland við íslensk og erlend þjóðlög. Flytjendur koma fram í þjóðbúningum og leika á fiðlu og harmóníum. Markmið tónleikanna er að viðhalda gamalli hefð, en hljóðfærin tvö hafa skipa stóran sess í alþýðutónlist Íslendinga um langt skeið. Einnig verða klassísk verk kynnt á aðgengilegan máta fyrir áheyrendum og sett í nýjan búning. Tónleikarnir verða haldnir á fjórum stöðum á starfssvæði Eyþings. Tónlistarfélag Akureyrar fær styrk í tónleikaröðina „Föstudagsfreistingar" sem haldin er yfir vetrarmánuðina. Á meðan á tónleikum er tvinnað saman tónlist og matarmenningu sem tengist við heimaland tónskálda eða flytjenda. Jazzklúbbur Akureyrar fær styrk í tónleikaröðina „Heitir fimmtudagar" sem haldir eru hvern fimmtudag á Listasumri. Hollvinafélag Húna II fær styrk í verkefnið „Haftónar" Áætlaðar eru þrjár ferðir í sumar þar sem hljómsveit, skáld, einsöngvarar og kokkur verða um borð. Í hverri ferð verður þema sem tengist eyfirsku skáldi eða menningu, Davíð Stefánssyni, Jónasi Hallgrímssyni og eyfirskum dægurlögum. Einnig verður strandmenning á Akureyri og í Eyjafirði kynnt í siglingunni. Kokkur mun elda góðgæti úr sjávarfangi úr Eyjafirði.
Kyle Guðmundsson í samvinnu við nokkra aðila fá styrk til gerðar handrits að leiksýningu fyrir ferðmenn undir verkefnisheitinu „Í gegnum eld og brennistein" Leikverkinu er ætlað að færa til lífsins sögu Víkinganna og Íslendinga á sögulegan og spennandi hátt fyrir áhorfendur. Náttúrusetrið á Húsabakka fær styrk í hönnun sýningarinnar Friðland fuglanna. Sem sett verður upp að Húsabakka í Svarfaðardal. Kristján Karl Bragason ungur tónlistarmaður frá Dalvík fær styrk í Tónlistarhátíðina Bergmál sem haldinn verður á Dalvík. Dagskrá hátíðarinnar er afar metnaðarfull og mun ungt tónlistarfólk bera hana upp
Jassklúbbur Ólafsfjarðar ætlar að koma á blússkóla í tengslum við Blúshátíðina í Ólafsfirði 1.-2. júlí 2011. Skólinn verður fyrir fólk á öllum aldri og fá ungmenni í vinnuskólanum að stunda nám í skólanum. Nemendur á námskeiðinu koma síðan fram á heimamannakvöldi á blúshátíðinni. Amtmannssetrið á Möðruvöllum hefur haldið úti metnaðarfullri dagskrá hálfsmánaðarlega í Leikhúsinu á Möðruvöllum síðustu ár. Viðburðirnir hafa verið afar vel sóttir. Amtmannssetrið fær styrk til kynningar á viðburðunum. Líf og list í Þingeyjarsveit er samstarfsverkefni ferðaþjónustuaðila í Þingeyjarsveit. Hyggjast þeir gefa út kynningarefni um alla þjónustu og viðburði sem fram fara í sveitarfélaginu í sumar. Leiklistarhátíðin Þjóðleikur á Norðurlandi er samstarfsverkefni fjölmargra aðila á Norðurlandi. Leiklistarhátíðin er ungmenni á aldrinum 14-20 ára. Haldin hafa verið námskeið og í apríl var lokahátíð þjóðleiks haldin á Akureyri Þjóðleikur fær styrk í lokahátíð verkefnisins.
George Hollanders fær styrk í sýninguna „ Reynsla er þekking" þar mun hann sýna hönnunarferli, módel og sýnishorn af náttúrulegum leikgarði sem byggir á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Hann mun einni sýna óhefðbundnar leiðir til að endurnýta sorp eða úrgang. Á sýningunni verður gagnvirkt vinnusvæði þar sem gestir og gangandi geta tekið þátt í og skapa sína eigin hugarsmíð. Einnig verður haldinn vinnusmiðja í samvinnu við listnema af svæðinu. Kammerkór Norðurlands fær styrk í verkefnið Nýtt og norðlenskt. Kórinn er búin að fá til liðs við sig norðlensk tónskáld til að semja fyrir sig ný verk.
Mirjam Blekkenhorst á List farfuglaheimilinu á Ytra Lóni fær styrk í verkefnið Langaness Artispehre 2011 sem er lista og gjörningahátíð sem haldin verður fyrstu vikuna í júní. Á hátíðinni verða m.a. opnar vinnustofur, námskeið/vinnusmiðjur gjörningar, tónlistarflutningur og fleira. Í verkefninu verður lögð áhersla á að vinna með sérstöðu svæðisins sem eru sauðfjárrækt, fuglalíf, ströndin og ósnortin náttúra. Markmið verkefnisins er að efla mannlíf og menningu og að vekja athygli á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem er góð leið til að efla byggðir. Í tengslum við Hrútadaga á Raufarhöfn á að setja upp ljósmyndasýningu á sauðfé og ræktendum þeirra á síðustu öld í Norður Þingeyjarsýslu. Sýningarsalurinn verður í Gömlu búðinni á Raufarhöfn sem stendur við höfnina.
Árið 1965 kom hópur starfsmanna Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA hingað til lands. Í hópnum voru geimfaraefni stofnunarinnar, þeirra á meðal Buzz Aldrin sem steig annar manna fæti á tunglið. Þeir fóru til æfinga og skoðuðu náttúru í Þingeyjarsýslum, sérstaklega við Mývatn og í Öskju. Tveim árum síðar kom annar hópur frá NASA og meðal geimfaraefna í þeim hóp var Neil Armstrong. Af þeim 12 mönnum sem hafa stigið fæti á tunglið komu 7 í Þingeyjarsýslu til að æfa sig og læra jarðfræði undir handleiðslu Íslenskra jarðvísindamanna. Menningarmiðstöð Þingeyinga fær styrk til að setja upp sýningu um þessa sögu og þá muni sem tengjast komu þessara manna til landsins. Í Þistilfirði hefur verið stofnað fræðafélag um forystufé. Nú vinnur félagið að því að gera fræðasetur um forystufé að Svalbarði í Þistilfirði. Félagið fær styrk til að hanna sýningu um forystufé sem sett verður upp í setrinu.
Hér áðan hlýddum við á Hymnodiu Kammerkór en kórinn hefur undanfarin misseri tekið þátt í afar krefjandi verkefnum þar sem tónskáld hafa beðið kórinn um að flytja nýja tónlist. Þetta hefur vakið mikla athygli, hjá tónskáldum, tónlistarmönnum og síðast en ekki síst hjá tónlistarunnendum. Kórinn hefur frumflutt fjölda verka eftir íslensk tónskáld. Sum þessara verka teljast vera gríðarlega erfið. Síðasta verkefni kórsins, flutningur hins umdeilda verks, Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands, er sennilega erfiðasta verk sem samið hefur verið fyrir kór hér á landi. Verkið sérstaklega samið með Hymnodiu í huga. Vegna þessarar velgengni í flutningi nýrrar tónlistar og vegna áhuga tónskálda hefur kórinn ákveðið að kynna sig enn frekar fyrir tónskáldum, ekki aðeins innlendum tónskáldum heldur einnig kórtónskáldum út um allan heim sem tónleika- og upptökukór. Verkefnið er unnið í samvinnu ýmsa aðila hér á Norðurlandi og viða.
Fuglasafn Sigurgeirs hefur vakið verðskuldaða athygli frá opnun þess árið 2008. Fuglasafnið hefur að geyma alla íslenska fugla auk nokkurra flækinga. Einnig er þar að finna í bátaskýlinu sögusýningu um fyrsta samgöngutæki Mývetninga, bátinn Sleypni. Á síðustu árum hefur Fuglasafnið verið að vinna að margmiðlunarefni um fugla og fær styrk í hönnunarþátt annars áfanga verkefnisins. Allt frá upphafi hefur það verið markmið Safnasafnsins að veita nýjum straumum inn í samfélagið, leita þá strauma upp heima og erlendis hvort sem þeir gerjast í miðju eða á jöðrum. Að vanda hefur safnið fengið fjölmarga aðila til samstarfs og í sumar verða opnaðar margar nýjar sýningar í safninu. Safnasafnið fær styrk til hluta þeirra sýninga.
Undanfarin ár hefur Listahátíðin Lista án landamæra verið stærst á Norðurlandi utan höfuðborgarsvæðisins. Framkvæmd hátíðarinnar á Norðurlandi byggir á góðu samstarfi einstaklinga og hópa. Stór hluti þátttakenda kemur úr röðum fólks með fötlun en lærðir og leiknir koma þó saman að ýmsum verkefnum. Atburðir á hátíðinni dreifast um allt Norðurland og verður eitthvað um að vera á Akureyri, Kjarnaskógi, Svalbarðsströnd, Húsavík, Fjallabyggð, Dalvík, Þórshöfn og á Kópaskeri. Á síðasta ári gaf Menningarmiðstöðin Listagili út veglegan bækling um lista og menningarstarf á Akureyri og nágrenni nánar tiltekið öllu starfssvæði Eyþings. Nú á að endurtaka leikinn og áætlað er að í bæklingi Listasumars 2011 verði kynntir, á íslensku og ensku, nær allir menningar- og listviðburðir á svæði Eyþings. Bæklingurinn verður borinn í hvert hús á svæðinu auk þess liggur hann frammi á fjölsóttum ferðamannastöðum og öllum upplýsingamiðstöðvum á landinu.
Mardöll félag um menningararf kvenna fær styrk í Fjölþjóðlega fólkvanginn: Vitið þér enn - eða hvað? samtal um rætur. sem haldinn verður á Akureyri um Jónsmessuna. Á fólkvanginum verða listviðburðir, vinnusmiðjur og fleira sem tengist menningararfi kvenna. Verksmiðjan á Hjalteyri er að hefja sitt fjórða starfsár og hefur þegar sýnt og sannað gildi sitt sem öflugur vettvangur menningar og lista á Norðurlandi eystra. Þar hafa listamenn og leikmenn, erlendir sem innlendir, á ýmsum aldri unnið saman að margvíslegum verkefnum. Fjölmargir listamenn taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sumarsins. Verksmiðjan fær styrk í hluta sumardagskrárnar. Þjóðlagahátíðin á Siglufirði verður haldin í 12 sinn í sumar. Að þessu sinni ber hátíðin yfirskriftina „Látum dansinn duna". Á hátíðinni koma fram íslenskir og erlendir tónlistarmenn og nokkrir þjóðdansa hópar íslenskir og erlendir.
GalleríVíð8atta601 og Helgi Þórsson fá styrk til að gera mynd á animation-formi um Úlfármálið. Viðfangsefni myndarinnar er atburður sem átti sér stað í Eyjafirði fremra árið 1704. Við gerð handrits er stuðst við grein Jóns Helgasonar í tímaritinu Fálkinn frá árinu 1964 auk eldri heimilda í annálum og skjölum á Þjóðskjalasafni og Héraðsskjalasafni. Verkið verður unnið sem einn kvæðabálkur þar sem tónlist og texti stjórnar hrynjanda verksins en myndhlutinn verður unninn sem hreyfimynd eftir texta og tónlist. Hljómsveitin Helgi og hljóðfæraleikararnir sjá um tónlistarflutning. Stuttmyndahátíðin Stulli verður haldið í fimmta sinn á árinu með nokkuð breyttu sniði. Verkefnið hefst í sumar í tengslum við vinnuskólan og á haustdögum verða síðan haldin námskeið í stuttmyndagerð. Við lok verkefnisins verður haldin stuttmyndahátíð þar sem þemaflokki og opnum flokki. Stuttmyndafestivalið Stulli er fyrir ungmenni á aldrinum 14-25 ára og taka 7 félagsmiðstöðvar á svæðinu þátt í verkefninu.