Umhverfisstofnun hefur tvisvar farið í eftirlitsferðir í verksmiðjuna og í bæði skiptin gert athugasemdir við mengunarmælingar sem enn eru í ólestri. Eftir að Kastljós kynnti Umhverfisstofnun gögn um mengunina í morgun voru starfsmenn eftirlitsins sendir rakleiðis norður til að kanna málið. Framkvæmdastjóri Verksmiðjunnar staðfesti í kvöld að þessi mikla umframlosun hafi viðgengist frá því verksmiðjan var tekin í notkun fyrir tæpum tveimur árum. Framkvæmdastjóri Becromal á Íslandi játar að forsvarsmenn verksmiðjunnar hafi lengi vitað af því að hreinsunarbúnaður verksmiðjunnar hafi ekki virkað sem skyldi á þeim tímum þegar álag á hann er mest, og að verið væri að fara á svig við skilyrði í starfsleyfinu. Sérstakur umhverfisfulltrúi sem framkvæma á mælingar og eftirlit með umhverfismálum hóf fyrst störf í verksmiðjunni fyrir tveimur mánuðum og mælingar á fosfórefnum voru fyrst framkvæmdar fyrir viku. Framkvæmdastjóri Becromal segir að verksmiðjan muni tafarlaust bæta úr þessum atriðum en vill að Umhverfisstofnun skeri úr um hvort starfsleyfið hafi verið brotið. Þetta kemur fram á ruv.is.