Matur frá Kaffihúsinu Barr í boði fyrir þá sem ekki eiga nóg fyrir sig

Silja Björk hjá Kaffihúsinu Barr í Menningarhúsinu Hofi hefur boðið bæjarbúum að grípa mat sem gengu…
Silja Björk hjá Kaffihúsinu Barr í Menningarhúsinu Hofi hefur boðið bæjarbúum að grípa mat sem gengur af eftir sölu dagsins. Þörfin sé greinilega mikil því allt sem sett er út hverfur. Mynd/Margrét Þóra

„Það er augljóst að margir íbúar Akureyrar búa við skort og þörfin er mikil,“ segir Silja Björk Björnsdóttir sem rekur Kaffihúsið Barr í Hofi á Akureyri sem hefur undanfarnar vikur tekið saman allan mat sem óseldur er að kvöldi, pakkað í þar til gerð matarbox sem svo er raðað upp í brauðbakka og komið fyrir undir borði utan við kaffihúsið.

Maturinn er settur eftir lokun kaffihússins, milli kl. 18 og 19 á kvöldi og þegar komið er til vinnu kl. 8 næsta morgun er undantekningarlaust búið að taka alla bakka sem í boði eru. Hún lætur vita hvað er í boði á fésbókarhópnum Matargjafir á Akureyri og nágrenni. 

Tímaskekkja og óþarfi að henda mat

Silju svíður að sjá þá miklu matarsóun sem tíðkast í veitingageiranum, en innan hans sé lenska að henda mat sem gengur af. Á höfuðborgarsvæðinu taki t.d. Kvennaathvarf og Rauði krossinn við matvælum, samlokum og fleiru sem nýtist skjólstæðingum en slíkir viðtökustaðir séu ekki fyrir hendi á Akureyri. Hún segir tímaskekkju og algjöran óþarfa að henda óskemmdum mat, það séu til leiðir til að koma honum í réttar hendur og þær þurfi að nýta. Búið sé að eyða mikilli orku í að framleiða matvælin á kostnað umhverfisins og eins þurfi umtalsverða orku til að farga þeim séu þau ekki nýtt.

„Við þurfum að hugsa þessi mál upp á nýtt, það er grátlegt að henda matvælum sem ekki eru skemmd á meðan til er hópur fólks sem á ekki mat handa sér og börnunum sínum og á meðan matarsóun er einn stærsti valdur loftslagsbreytinga,“ segir Silja og bætir við að á Akureyri sé stór hópur sem ekki eigi fyrir mat út mánuðinn. Umræðan um fátækt sé óþægileg en hana verði að taka. 

Þurfum að finna betri leið til að deila út

Silja Björk hvetur aðra til að hugsa áður en þeir henda, reyna frekar að láta afgangsmatvæli ganga áfram, „en það segir sig sjálft að við þurfum að finna betri leið til að deila þessu út, það gengur ekki á köldum vetrarkvöldum að geyma matvæli hér fyrir utan húsið. Það er óskandi að einhver samtök eða félög gætu tekið þetta samfélagsverkefni að sér,“ segir hún.  

/MÞÞ


Nýjast