Margar giftingar á 7-9-13 daginn, sem er á morgun
Mörg pör víðs vegar um landið munu ganga í það heilaga á morgun, en þá er dagsetningin happatölurnar 7-9-13. Akureyrarkirkja er vinsæl meðal verðandi hjóna og komust færri að en vildu.
Svavar Alfreð Jónsson og Hildur Eir Bolladóttir eru prestar við Akureyrarkirkju. Það verða alls fjórar hjónavígslur í kirkjunni og þar að auki tvær skírnir. Þannig að kirkjan verður í notkun frá klukkan ellefu að morgni til sjö um kvöldið á þessum vinsæla degi, segir Svavar.
Einnig verður talsvert um giftingar í sveitunum í nágrenni Akureyrar, í heimahúsum og í Lögmannshlíð.
Það vilja margir upplifa þá stemmningu að gifta sig í lítilli sveitakirkju eða hafa litlar athafnir í heimahúsum, segir Hildur Eir. Grundarkirkja er t.d. mjög vinsæl og ég verð með eina giftingu þar á morgun. Svo er bara að vona að lukkan fylgi verðandi hjónum. 7.9.13, segir Hildur Eir og hlær.