Málum fækkaði umtalsvert hjá lögreglunni á Akureyri

Á síðsta ári komu 2.839 mál til kasta lögreglunnar á Akureyri og fækkaði málum um rúmlega 900 frá árinu 2009. Samkvæmt upplýsingum Daníels Guðjónssonar yfirlögregluþjóns hefur málum fækkað jafnt og þétt frá árinu 2007 og munar þar mestu um mikla fækkun umferðarlagabrota. Hegningarlagabrotum fækkar nokkuð á þessu árabili en sérrefsilagabrotum fjölgar lítillega, samkvæmt bráðabirgðatölum síðasta árs.  

Árið 2007 komu 5.826 mál til kasta lögreglunnar á Akureyri, 4.413 mál árið 2008 og 3.751 mál árið 2009. Varðandi hegningarlagabrotin þá fækkar auðgunarbrotum milli áranna 2009 og 2010. Líkamsárásum fækkar einnig en innbrotum fjölgar lítillega. Þá fækkar eignaspjöllum og skemmdarverkum en sérrefsilagabrotum fjölgar lítillega.

"Mikil breyting hefur hinsvegar verið á umferðarlagabrotunum síðustu ár og þeim fækkað umtalsvert. Líklegustu skýringarnar eru þær að umferð hefur minnkað á þjóðvegum, sektir hækkuðu mikið fyrir nokkrum árum og þá hefur eldsneytisverð hækkað mikið sem hvetur til hagkvæmari aksturs. Því til viðbótar hefur geta lögreglu til eftirlits minnkað mikið vegna niðurskurðar fjárheimilda síðustu ár," segir Daníel.

Sem dæmi voru brot vegna hraðaksturs alls 328 árið 2010 en þau voru tæplega 1.500 árið 2007. Þá voru færri teknir fyrir ölvun við akstur og akstur undir áhrifum fíkniefna  á síðasta ári en árið 2009, eða samtals 128 í fyrra á móti 190 árið 2009. Kynferðisbrotum fjölgaði um 5 á milli ára en þau voru 25 árið 2010. Fíkniefnabrotum fækkaði einnig um 5 á milli ára en slík mál voru 115 árið 2010. Þá komu upp 100 mál í tengslum við ölvun á almannafæri en slík mál voru 84 árið 2009. Skráð umferðaróhöpp voru 319 á síðasta ári en þau voru 335 árið á undan.

Daníel segir að lögreglan nái að halda í horfinu og sinna því sem upp á kemur án þess að almenningur verði mikið var við verri þjónustu en áður en getan til frumkvæðisvinnu og almenns eftirlits hafi minnkað.

Nýjast