Lið Akureyrar Handboltafélags fer með þriggja stiga forskot inn í jólafríið í N1-deild karla í handbolta. Að ellefu umferðum loknum hefur Akureyri 19 stig á toppi deildarinnar en Fram hefur 16 stig í öðru sæti. Hlé verður nú gert á deildinni vegna HM í Svíþjóð og fer næsta umferð ekki fram fyrr en 3. febrúar á næsta ári. Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, er að vonum sáttur við árangurinn og jafnframt bjartsýnn á seinni hluta tímabilsins.
„Við erum búnir að spila við öll liðin í deildinni að minnsta kosti einu sinni og sum tvisvar eða þrisvar og við erum búnir að eiga í fullu tré við þessi lið. Það er hins vegar fullt eftir ennþá og maður veit ekkert hvað gerist með meiðsli. Við höfum verið að keyra mikið á sömu mönnunum í vetur þannig að það er lykilatriði að menn haldist heilir og það er eitthvað sem maður veit aldrei fyrirfram,” segir Atli.
Nánar er rætt við Atla í Vikudegi í dag.