Lúxushótel við Grenivík: Stefna á að byggingaframkvæmdir hefjist í ágúst

Samsett mynd
Samsett mynd

Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, fyrrverandi landsliðsmenn á skíðum og eigendur Viking Heliskiing og Scandic Guides, eru komnir vel af stað með risaverkefni í heilsársferðaþjónustu. Eins og við höfum áður greint frá hafa þeir ákveðið í samstarfi við erlenda fjárfesta að hefja byggingu á glæsilegu lúxus hóteli rétt við Grenivík í Eyjafirði.

Höfði lodge

Hótelið, sem hefur fengið nafnið Höfði Lodge, verður 5500 fm. að stærð með 40 herbergjum, þar af fjórum svítum, ásamt bar, veitingastað, heilsurækt, funda- og ráðstefnusal og allri annarri þjónustu.

Afþreyingarferðamennska allt árið

Höfði lodge

Sérstök áhersla verður lögð á afþreyingar ferðamennsku fyrir hótelgesti og í boði verður meðal annars þyrluskíðun, fjallaskíðun, fjallaferðir, hjólaferðir, snjósleðaferðir, gönguferðir, hvalaskoðun, hestaferðir og öll almenn skot- og stangveiði.

Í samtali við Vikublaðið segir Björgvin að verkefnið gangi vel en vegaframkvæmdir að fyrirhuguðu hótelinu eru hafnar. „Þetta gengur mjög vel, við erum bara að klára veginn núna og sprengjum klöppina vonandi núna í næstu viku,“ segir hann.

Hótelið mun rísa fyrir ofan 50 metra háan klettavegg á Þengilhöfða sem gengur út í austanverðan Eyjafjörðinn. Þaðan er útsýnið stórbrotið samspil milli hafs og fjalla, með óhindrað útsýni til mynnis Eyjafjarðar og yfir á Tröllaskagann. Björgvin dregur heldur ekkert undan þegar hann segir að þeir félagarnir hafi  fundið besta staðinn í Evrópu til að reisa hótel.

 Verkið á áætlun

Björgvin og Jóhann eru stærstu fjárfestarnir í verkefninu en þeir eru einnig í samstarfi við erlenda fjárfesta. Björgvin segir að áætlanir um að opna hótelið í lok næsta árs muni standast. „Það verður vonandi byrjað á byggingunni sjálfri núna í ágúst. Þannig að um áramótin 2022-2023 stefnum við á að opna, það er okkar markmið. Það er verið að klára að semja við verktaka. Búið er að semja við erlendu verktakana og það er verið að semja við íslenska verktakann,“ segir Björgvin og bætir við að ekki sé tímabært að gefa upp hver verktakinn er fyrr en  samningar hafa verið kláraðir.

 Markhópurinn ríkir ferðamenn

Björgvin fer ekki leynt með það að um risastórt verkefni sé að ræða, þó hann vilji ekki gefa upp nákvæmlega hvað hótelið komi til með að kosta. „Það er að sjálfsögðu komin kostnaðaráætlun en ég hef ekki verið að gefa upp verðið á þessu,“ segir hann og bætir við að þetta muni kosta töluvert meira en milljarð króna. „Þetta á að verða flottasta gisting á landinu enda er markhópurinn klárlega efnameira fólk alls staðar að úr heiminum.“


Athugasemdir

Nýjast