Lokaorðið - Sumardagurinn fyrsti.

Svanhildur Daníelsdóttir átti lokaorðið í þessari viku
Svanhildur Daníelsdóttir átti lokaorðið í þessari viku

Sumardagurinn fyrsti er ævaforn hátíðisdagur á Íslandi. Þó líði aldir og kynslóðir komi og fari er ekkert sem Íslendingar þrá heitar en vorið. Hjörtun slá þá í mildum samhljóma takti og loks er liðin vetrarþraut. Sumardagurinn er einnig þekktur sem barnadagurinn. Í þéttbýlinu gerði fólk sér dagamun og klæddist sparifötum.

Skrúðgöngur, fánaborgir og lúðrasveitir. Eftirvænting í andlitum og skátarnir oftast í fararbroddi. Í sveitinni heima fengum við krakkarnir sumargjafir. Heimildir um sumargjafir finnast allt aftur á 16. öld og í Sögu daganna eftir Árna Björnsson kemur fram, að frá fornu fari voru sumargjafir algengar víða um land, ekki síst í Eyjafirði og Skagafirði. Ég var svo heppin að fá sumargjafir og var föður mínum umhugað um það. Hann var Eyfirðingur og ólst upp við þann sið fyrir 100 árum síðan.

Ólíkt jólagjöfunum sem í minni mínu voru oftast föt eða eitthvað nytsamt, þá finnst mér að sumargjöfin hafi alltaf verið leikfang, oft litlir gúmmíboltar. Við krakkarnir lögðum rækt við svokallaðan tvíbolt og þríbolt og þeir fimustu réðu við fjórbolt, jafnvel fimmbolt. Leikurinn fólst í því að henda boltunum í vegg hverjum á eftir öðrum og grípa jafnharðan, henda aftur viðstöðulaust og missa þá ekki niður. Ein sumargjöf er mér sérstaklega minnistæð, það var sippuband með gulum tréhöldum og fremst á höldunum voru rauðar kúlulaga spiladósir fallega skreyttar. Í kúlurnar var bandinu krækt og þegar maður sippaði snérust kúlurnar og spiluðu lag.

Önnur sumargjöf er mér líka minnistæð en það var plasthringur sem maður setti uppá annan ökklann. Í hringinn var fest band og á hinum enda bandsins var lítill bolti. Svo snéri maður fætinum hring eftir hring og hoppaði yfir bandið með hinum fætinum. Þá eru ótaldir húlahringirnir sem pabbi bjó til úr hvítu rafmagnsrörunum og spjöldin með brókarteygjunum sem mamma gaf okkur og við notuðum í teygjutvist.

Þá man ég eftir að það var keppikefli að leika sér úti á peysunni sem oft var fallega útprjónuð ullarpeysa. Og þó veðrið væri ekki uppá marga fiska var eitthvað táknrænt við það að kasta af sér vetrarhamnum. Já, sumardagurinn fyrsti er yndislegur.

Dagur gleði, bjartsýni og vonar.

Gleðilegt sumar!


Athugasemdir

Nýjast