Lokaorðið - Og við verðum öll að geta hlustað.
Það getur ekki öllum liðið alltaf vel. En það á heldur engum að líða alltaf illa. Passleg blanda er líklega best, horfa bjartsýn fram á veg, snúa baki við skugganum. Vita af þungum steinum, en láta þá ekki hafa áhrif á sig. Lífsviðhorf sem ætti að vera auðvelt og einfalt, en er það ekki fyrir marga.
Alltof marga.
Við vitum ekki hvað annað fólk burðast með, við þekkjum ekki skugga þeirra og þunga kalda grjótsins sem á þeim hvílir. Þess vegna eigum við að temja okkur mildi og umburðarlyndi. Við þekkjum engan í raun og veru, dýpstu hugsanir þeirra, gleði, áföll og sorgir.
Og í dag klæðist ég gulu. Fyrir skólabróður, fyrir kennara og samstarfsmann, fyrir frænku og nú síðast fyrir fullorðinn frænda. Fyrir skólasystur og ungan mann sem bæði lifa með miklar skerðingar og fötlun eftir sjálfsvígstilraun. Fyrir gamla vinkonu sem syrgir son sinn. Og öll hin. Sum höfðu reynt að leita aðstoðar en það dugði ekki til og sum höfðu komið að lokuðum dyrum. Sum höfðu ekki látið á neinu bera, brosið frosið á myndum. Enginn vissi og enginn skildi. Engin tækifæri gefin til að veita hjálp. Og svo var það of seint.
Ég fagna vitundarvakningu um sjálfsvíg og forvarnir gegn þeim. Þegar skammdegið nálgast er við hæfi að lýsa samfélagið í gulum september. Megi það verða til þess að fleiri geti orðað sína vanlíðan, sótt styrk og hjálp. Tekið samtalið. Unnið úr gömlum og nýjum sorgum og áföllum. Staðið sterkari á eftir. Samtalið er upphafið að nýju lífi.
Og við verðum öll að geta hlustað.