Lokaorðið - Naktir kennarar.

Svanhildur Daníelsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Svanhildur Daníelsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Þegar líður að starfslokum er óhjákvæmilega horft yfir farinn veg. Farsæl 38 ár við kennslu. Samkvæmt rannsóknum stendur skólakerfi bókaþjóðarinnar afar illa á köflum. Lestrarfærni og lesskilningur er allt of lélegur. Nú legg ég brátt frá mér límstiftið og skærin. Af hverju nefni ég þessa tvo hluti? Vegna þess að námsefnisskortur í íslenskum skólum hefur allan minn starfsaldur verið mikill. Allir vita að ef árangur á að nást í einhverju þá þarf æfingu og hvatningu. Þetta skilja allir þegar talað er um íþróttir og tónlist, en þegar talað er um lestur, móðurmálið, stærðfræði og náttúrufræði er farið í vörn.  „Æfingin drepur meistarann“ sagði eitt sinn óöruggur og meðvirkur kennari í mín eyru og átti við að endurtekningar væru af hinu illa.

Þróun ljósritunarvélarinnar

Eina virkilega þróunin sem ég hef orðið vitni að öll þessi ár er þróun ljósritunarvélarinnar. Fyrst voru vélarnar einfaldar og hæggengar. Síðan var hægt að ljósrita báðar hliðar og afkastagetan jókst með hverju nýju módeli. Svo fóru vélarnar að hefta saman og brjóta heilu heftin á ógnarhraða og í dag er hægt að skanna og ljósrita í lit. Þetta var nauðsynlegt vegna þess að kennarar höfðu ekkert námsefni. Engar myndrænar og litríkar bækur sem tóku við og stig þyngdust eftir því sem getu og áhuga nemenda fleygði fram. Ekkert fallegt og hvetjandi sem nemendur gátu keppst við að klára til að fá nýtt fallegt að glíma við. Forðum var sagt um konur að þeirra staður væri við eldavélina. Staður íslenskra kennara hefur sannarlega verið við ljósritunarvélina. Langa daga, kvöld og helgar öfluðuð þeir efnis héðan og þaðan, oft með því að kaupa sjálfir erlendar kennslubækur, þýða, staðfæra, klippa saman, líma og loks að ljósrita heilu bekkjarsettin. Misjafnlega vel unnin, skökk, óskýr, grá, svarthvít. Valblöð í sama stíl hangandi í plastumslögum á veggjum.

Drukkið kaffi og heimsmálin leyst

Við ljósritunarvélina hittust kennarar, drukku kaffið og leystu heimsmálin á meðan vélin kláraði og næsti komst að til að ljósrita. Engu hefur verið til sparað í kaup á þúsundum tonna af pappír og vélarnar endurnýjaðar samviskusamlega. Fyrir téðum 38 árum kom ég inn í skólavörubúðir í Bandaríkjunum. Því gleymi ég aldrei. Þar var bókstaflega allt til fyrir allan aldur. Fallegar litríkar og myndrænar bækur sem tóku við hver af annari eftir því sem náminu vatt fram.

Já, neyðin kenndi nöktum kennurum að spinna.


Athugasemdir

Nýjast