Lokaorðið - Ich bin ein Berliner
Berlín 9. nóvember 1989
Eftir menntaskóla bjó ég einn vetur í München. Hugðist nú heldur betur læra þýskuna og tala eins og innfædd. Markmiðið var metnaðarfullt en árangurinn ekki í takt við það. Reyndar heldur faðir minn að ég sé þýsku sjéni því á ferðalögum okkar á ég það til að panta veitingar á þýsku. Við skulum ekki leiðrétta það.
Fall múrsins
Í byrjun nóvember 1989 fór að bera á fréttum um að hinn frægi Berlínarmúr væri að falli kominn. Þó ekki vegna viðhaldsskorts en sprungur voru komnar í Austrið og Járntjaldið farið að trosna. Við vinkonurnar töldum að það gæti orðið áhugavert að kíkja til Berlínar. Keyptum við næturmiða í lest og fengum að gista hjá velviljuðum Íslendingi.
Í einu orð sagt ógleymanleg stund
Við vorum einn dag í Austur Berlín, sem var sótug og illa hirt. Vorum nánast einar að stjákla um borgina, gamlir trabantar á ferð og borgin grá. Minnti sannarlega ekkert á þá glæsilegu borg sem Berlín var fyrir stríð. Í Vestrinu var önnur saga, þangað flykktust íbúar beggja borgarhluta og var ákaft fagnað. Mótmælin voru friðsæl og með hamra á lofti náði fólk sér í stykki úr múrnum. Það var ótrúlegur munur á borgarhlutunum tveimur. Sama þjóðin, einn veggur skildi þau að frá stríðslokum til 1989, en auk ásýndarinnar var menningarmunurinn áþreifanlegur.
Upphafið að endalokum kalda stríðsins
Þetta var byrjun á falli Sovétríkjanna eins og þau voru þekkt þá og var upphaf að endalokum Kalda stríðsins auk þess sem Þýskaland sameinaðist í kjölfarið.Upphaf nýrra og friðsælla tíma í Evrópu og leit maður á frið í Evrópu sjálfsagðan.
Blikur á lofti
Nú hafa óveðurský enn á ný hrannast upp í Evrópu. Friður sem maður tekur sem sjálfsögðum er brothættur. Nú reynir á þjóðaleiðtoga sem aldrei fyrr.
Athugasemdir