11.desember - 18.desember - Tbl 50
Lokaorðið - Forgangslistinn
Eftir því sem ég eldist verð ég sífellt þakklátari fyrir að fá að ganga lífsins veg með fólkinu mínu. Við erum fámenn þjóð og höfum í gegnum tíðina staðið þétt saman. Við höfum lyft grettistaki í forvörnum vegna slysa á sjó og landi.
Lengi var lítið rætt um sjálfsvíg en við höfum bætt okkur og má nefna Píeta samtökin sérstaklega. Við reynum að setja okkur í spor þeirra sem missa nákomna en ef við höfum ekki reynt það á eigin skinni þá er það erfitt. Það á sér í lagi við þegar börn eða ungmenni falla frá. Við hvert ótímabært andlát er stórfjölskylda og vinahópur í sárum, syrgja þann sem fór sem og þá framtíð sem hefði orðið.
Undanfarin misseri hafa andlát vegna fíkn vandans, m.a. opióíða, fjölgað verulega. Ég hef sannarlega ekki lausn á þessum vanda eða er þess umkomin að benda á aðra sem eiga að leysa hann. Það þarf samvinnu og þjóðfélagslegt átak til þess. Börn missa foreldra sína, foreldrar missa börn sín. Vinir og fjölskylda standa ráðþrota og niðurbrotin, lífið verður ekki samt. Vegur sorgarinnar er vissulega langur og strangur en hvorki ófær né endalaus. Við lærum að lifa með sorginni.
Við reynum að taka jákvæða reynslu úr öllum erfiðleikum sem við höfum yfirstígið. Það er erfitt að sætta sig við ótímabær andlát og gleymum ekki þeim hörmunum sem einstaklingurinn hefur gengið í gegnum í baráttu sinni við fíknina sem og ástvinir.
Af öllum verkefnum sem eru framundan og öll þau málefni sem við getum nöldrað og skammast yfir – ættum við sem samfélag að setja baráttuna við fíknidjöfulinn framar á forgangslistann.