Lokaorðið - Að gera við ónýtt með ónýtu

Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

,,Réttu bónda baggaspotta og hann reddar málunum“. Ég á gamla girðingu. Ég veit ekki alveg hversu gömul hún er, en þegar ég var að skottast með pabba í girðingarvinnu fyrir 40 árum síðan, þá var þetta ,,gamla girðingin“. Á hverju ári er gengið með gömlu girðingunni, reknir naglar í fúna staura, netið hengt upp, skipt um brotnu staurana og búta af gaddavír. Hún þarf bara að halda, ekki vera neitt augnayndi. Og hún er sannarlega ljót, víða búið að sauma saman netið með baggaspottum. En gerir sitt gagn, í augum sauðkinda lítur hún út fyrir að vera sterkari en hún er. Það er lengi hægt að tjasla í það sem ónýtt er, bæta við baggaböndin og styrkja lélegustu kaflana.

Ef ekki væri árlegt viðhald á gömlu girðingunni þá myndi hún fljótt leggjast alveg flöt og verða endanlega ónýt.

Sama gildir um önnur mannanna verk, títtnefnda innviði. Það þarf að halda þeim við. Hér getum við nefnt menntakerfið, heilbrigðiskerfið, vegakerfið, orkukerfið.  Að setja fjármagn í rekstur, viðhald og starfsemi, það kostar. Þegar fólkinu á gólfinu eru réttir baggaspottarnir, hversu margir og sterkir þurfa þeir að vera? Bara passlega svo kerfið hangi saman? Svelta þar til að hruni er komið, eða viðhalda almennilega svo ekki þurfi að fara í stórkostlega endurnýjun?  Á sama tíma og fjármálastjóri Menntaskólans á Akureyri afhjúpar sveltistefnu gegn skólanum eru kynnt stórhuga áform um viðbyggingu við Verkmenntaskólann. Ekki eru tryggðir fjármunir til að reka VMA eins og er, frekar en MA.  Stöðugur tilbúinn hallarekstur með reiknikúnstum ríkisins.

Það er gaman byggja nýja skóla, dvalarheimili og landspítala, að opna nýjar brýr, ný jarðgöng. Það er lengi hægt að slá um sig með steinsteypu. En hvað með starfsemina, hina raunverulegu afurð kerfisins? Það er ekki nóg að byggja skóla ef ekki er hægt að reka hann.

Mér leiðist gamla girðingin. Einn daginn mun ég rífa þessa girðingu og girða nýja. Kannski geri ég það í bútum, sníð mér stakk eftir vexti.  Nýja girðingin mun þjóna sama tilgangi og sú gamla, en hún verður töluvert reisulegri. Það verkefni mun kosta bæði tíma og peninga, en það verður vissulega gaman.


Athugasemdir

Nýjast