Lögreglufélög mótmæla lokun fangelsisins á Akureyri

Fangelsið á Akureyri.
Fangelsið á Akureyri.

Stjórnir Lögreglufélags Eyjafjarðar og Lögreglufélags Þingeyinga mótmæla harðlega fyrirhugaðri lokun Fangelsisins á Akureyri. Í yfirlýsingu lögreglufélaganna er lýst yfir furðu, „að til standi að loka vel reknu og góðu betrunarúrræði sem full þörf er á og telst tæplega óhagkvæmt í rekstri.“

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Lokunin mun hafa mjög neikvæð áhrif fyrir Lögregluna á Norðurlandi eystra. Hagkvæmnisrökin, sem fram er haldið, má draga í efa af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi standast tæplega fullyrðingar um að fangelsið á Akureyri sé óhagkvæm rekstrareining. Í öðru lagi virðist hafa gleymst að horfa til þess óhagræðis sem lokunin mun hafa fyrir lögregluna á svæðinu. Fangelsið á Akureyri og Lögreglan á Akureyri deila húsnæði og hefur um árabil verið náið samstarf milli stofnanna, til hagsbóta og hagræðis fyrir stofnanirnar báðar og um leið fyrir ríkið. Á næturvöktunum er aðeins einn fangavörður á vakt en tveir fangaverðir á daginn. Fangelsismálastofnun sparar þannig einn starfsmann helmings tímans, þar sem lögreglan aðstoðar og tryggir öryggi fangavarðar á næturvöktum. Á móti sinna fangaverðirnir þeim sem lögregla handtekur og vistar í fangaklefum sínum til skamms tíma. Lögreglan þarf því ekki að festa lögreglumenn við gæslu handtekinna á dagvöktum, og festa aðeins einn lögreglumann við það á næturvakt í stað tveggja. Fleiri lögreglumenn eru þannig lausir í útköll og önnur verkefni hverju sinni.

Þeir útreikningar sem liggja að baki ákvörðun um lokun fangelsisins á Akureyri hafa ekki verið birtir. Dómsmálaráðherra hefur þó sagt að það kosti um 100 milljónir á ári að halda Fangelsinu á Akureyri opnu. Samkvæmt fjárlögum fær Fangelsismálastofnun (FMS) 2.2 milljarða á árinu. Af þeirri upphæð fara því 4,5% í Fangelsið á Akureyri, en fangelsið sér hins vegar líklega fyrir meira en 6% fangelsisrýma á landinu. Tölur af vef FMS benda auk þess til að færri starfsmenn séu á hvert fangelsisrými í Fangelsinu á Akureyri en í Fangelsinu á Litla Hrauni, sem einnig er sk. „lokað fangelsi.“

Þetta er í samræmi við skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010, sem benti á að hvert pláss væri ódýrara í Fangelsinu á Akureyri en í öðrum lokuðum fangelsum sem þá voru starfrækt og fangelsið væri einmitt hagkvæm rekstrareining vegna samstarfsins við lögreglu. Dómsmálaráðherra sagði einnig, í rökstuðningi sínum fyrir lokuninni, að nýtingin í Fangelsinu á Akureyri hefur verið undir 80%. Þetta er eitthvað sem lögreglumenn á svæðinu hafa einmitt undrast síðustu misseri, oft á tíðum hafa jafnvel nokkur pláss verið laus í fangelsinu svo vikum eða mánuðum skiptir á meðan boðunarlistar FMS hafa lengst. En nýtingin er ekki Fangelsinu á Akureyri sjálfu að kenna, það er yfirstjórn FMS sem boðar fólk til afplánunar og skiptir niður á fangelsin. Einnig má benda á að nýting undir 80% á ekki bara við um Fangelsið á Akureyri, sú tala á við um meðalnýtingu allra fangelsisrýma á Íslandi síðustu þrjú ár. Sem fyrr segir virðist ekki hafa verið tekið tillit til þeirra áhrifa sem lokun Fangelsisins á Akureyri mun hafa fyrir Lögregluna á Norðurlandi eystra. Fleiri daga en færri er einhver vistaður í fangaklefum lögreglu. Standi lokunin munu lögreglumenn á Akureyri ítrekað verða bundnir yfir fangagæslu, þá oftast tveir af fimm vakthafandi lögreglumönnum.

Það þarf ekki að fjölyrða um hvernig það mun koma niður á löggæslu á svæðinu. Eigi svo ekki að vera þarf lögreglan að leggja út í mikinn kostnað við fangagæslu, annaðhvort með aukavinnu eða með því að ráða fleiri starfsmenn. Þá myndi lokunin einnig auka mjög flækjustig við rannsóknir mála þar sem sakborningar sæta gæsluvarðhaldi. Það er ljóst að það fyrirkomulag sem er í dag, með Fangelsið á Akureyri áfram opið og í samstarfi við lögreglu telst áfram hagkvæmur kostur fyrir Lögregluna á Norðurlandi eystra, fyrir Fangelsismálastofnun og þá um leið fyrir ríkið.

Stjórn Lögreglufélags Eyjafjarðar Stjórn Lögreglufélags Þingeyinga



Athugasemdir

Nýjast