Lögreglan fær meira húsnæði

Framkvæmdir standa nú yfir vegna breytinga á húsnæði sem Fangelsið á Akureyri hafði áður til umráða.

Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra fær húsnæðið undir sína starfsemi að þeim loknum, en fangelsið var rekið í sama húsnæði og lögreglan, við Þórunnarstræti 138.

Kostnaðaráætlun var upp á ríflega 118,2 milljónir króna. Tvö tilboð bárust, bæði yfir áætluðum kostnaði. ÁK-smíði ehf bauð rúmlega 157,1 milljón í verkið, 133% af áætluðum kostnaði og Tréverk 148,9 milljónir, 26% yfir kostnaðaráætlun. Lægra tilboðinu var tekið. Áætluð verklok eru í lok júní á þessu ári.

Verkið felst í því að breyta fangelsinu í aðstöðu fyrir almenna deild lögrelgunnar. Um er að ræða niðurrif á því sem fyrir er og að byggja upp á nýjan leik. Þar verða me.a. skrifstofur, búningsklegar, eldhús, matsalur og fundarsalur. Einnig verða gerðir nýir gluggar, útihurð og útitröppur. Húsnæðið er um 600 fermetrar að stærð.

Húsnæðið hefur staðið autt frá því fangelsið var lagt niður í september  árið 2020.  Gagngerar endurbætur voru gerðar á húsnæði Fangelsins árið 2008.

/MÞÞ


Athugasemdir

Nýjast