Lítill áhugi á frekari sameiningu í Hörgársveit

Hanna Rósa Sveinsdóttir oddviti í Hörgársveit segir að á vegum Eyþings sé starfandi verkefnisstjórn um sameiningarkosti á svæði  Eyþings  sem hittist annað veifið og fari yfir málin.  Eins og staðan er nú telur hún að lítill áhugi sé í sínu sveitarfélagi á því að fara út í frekari sameiningu.  

„Við erum nýbúin að sameina tvö sveitarfélög, Arnarneshrepp og Hörgárbyggð í eitt sveitarfélag, Hörgársveit.  Þar áður eða árið 2001 sameinuðust þrír hreppar í sveitarfélagið Hörgárbyggð þannig að á tæpum áratug erum við búin að sameina fjögur sveitarfélög í eitt.  Ég finn ekki að íbúar hafi mikinn áhuga á að fara út í frekari sameiningu að svo stöddu heldur hlúa að því sem við höfum núna segir hún og bætir við að hún telji að flestir séu líka  á móti því að sveitarfélög verði þvinguð til að sameinast með lagasetningu. 

Íbúar í Hörgársveit eru nú 599 talsins og fækkaði um 7 milli ára, en Hanna Rósa bendir á að varla sé um  marktæka fækkun íbúa að ræða.  Skýringuna á fækkuninni megi rekja til erlendra aðila sem voru skráðir til heimilis í sveitarfélaginu tímabundið á árinu 2009 en fluttu svo burt árið 2010. 

Nýjast