Það er lögbundin skylda að halda úti skólastarfi samkvæmt viðmiðunarstundaskrá en sú virðist því miður ekki alltaf raunin, segir Karl Frímannsson fræðslustjóri hjá Akureyrarbæ.
Talsvert er um að ekki sé mannað í stöður kennara á unglingastigi í grunnskólum á Akureyri sem forfallast vegna veikinda eða annarra ástæðna.
Karl segir að allar stöður séu mannaðar þegar um langtímaforföll sé að ræða en stundum geti reynst erfitt að fá kennara í afleysingar með skömmum fyrirvara.
Þó að ég ætli ekki að svara fyrir alla skólana, þá getur verið að sparnaður spili inn í þá ákvörðun að fella niður kennslu í einhverjum tilvikum. Hluti af okkar vanda er að láta enda ná saman. Langtímaforföll hjá kennurum hafa aukist hratt og við höfum átt fullt í fangi með að bregðast við þeim, segir Karl.
Sparnaður
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir það verulega slæmt ef forfallakennsla á unglingastigi sé á undanhaldi. Oft er bara mynd sett í tækið eða fundin önnur afþreying í stað þess að börn fái kennslu þegar veikindi koma upp. Því miður virðist sparnaðurinn hjá skólunum oft bitna á forfallakennslu, segirHrefna.
throstur@vikudagur.is