Líst illa á hugmyndir um afnám sjómannaafsláttar

Fulltrúum útvegs- og sjómanna líst ekki alls kostar á hugmyndir þær sem Björn Valur Gíslason þingmaður og varaformaður fjárlaganefndar viðraði á dögum í þá veru að ríkið hætti að greiða með sjómannaafslætti en kostnaður sem af honum hlýst verði færður yfir á útgerðina. Sjómenn munu aldrei ljá máls á því að afslátturinn verði tekin af án þess að hann verði að fullu bættur og útvegsmenn segja álögur þegar miklar og takmarkað svigrúm til að auka þær.  

"Nú fyrir nokkrum vikum var launakostnaður atvinnurekenda aukinn með hækkun tryggingargjalds. Það eru auðvitað takmörk hvað fyrirtæki geta greitt hátt hlutfall tekna í laun og launakostnað. Hvað íslenska útgerð varðar greiðir hún alltaf hlutfall af heildartekjum í laun og er þetta hlutfall orðið  mjög hátt og getur ekki hækkað meira," segir Kristján Vilhelmsson formaður Útvegsmannafélags Norðurlands.
Hann segir fleiri stéttir í þjóðfélaginu njóta skattaívilnunar vegna eðli starfa þeirra eða öllu heldur hvar vinna fari fram. „Þessi ívilnun er undir nafni „dagpeninga" og ef það á að fara að skera upp kerfið verður að taka það allt fyrir en ekki bara eitt þeirra."
Bendir Kristján á að starf sjómannsins sé þannig að oft er erfitt fyrir maka að vinna úti þannig að tekjur heimilisins eru eingöngu sjómannsins. „Ég vil meina að nýlagður hátekjuskattur, sem tekur ekki tillit til þessa, sé sjómönnum töluvert íþyngjandi og það komi úr hörðustu átt að það sé stjórnarmaður í verkalýðsfélagi sjómanna sem bryddar upp á þessari hugmynd nú," segir Kristján.

Konráð Alfreðsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar segir málið ósköp einfalt, sjómenn muni aldrei nokkurn tíma ljá  máls á því að sjómannaafsláttur verði felldur niður öðru vísi en að á móti komi fullar bætur.  Ríkið yrði þá að setja lög sem kvæðu á um að útgerðin greiddi þá upphæð sem skattaafslættinum næmi til að dæmið gengi upp.  Ef sú staða kæmi upp að sjómenn þyrftu að sækja bæturnar í frjálsum samningum sér Konráð fyrir sér mikinn og langvinnan slag.  „Sjómenn munu aldrei gefa þetta eftir nema með fullum bótum og þá er það ríkisins að sjá til þess að svo verði.  Annars er einkennilegt að ráðast með þessum hætti á eina stétt manna og ætla henni að taka á sig tekjuskerðingu, það er ótækt að mínu mati," segir Konráð.

Nýjast