Lionsklúbburinn Hængur gefur tvo rafsuðuhjálma sem fara til Burkina Faso

Adam Ásgeir Óskarsson tekur við gjöfinni, úr hendi Jóns Halldórssonar formanns Lionsklúbbsins Hængs.…
Adam Ásgeir Óskarsson tekur við gjöfinni, úr hendi Jóns Halldórssonar formanns Lionsklúbbsins Hængs. Myndir: Aðsendar

„Þessi gjöf mun örugglega koma sér mjög vel,“ segir Adam Ásgeir Óskarsson sem tók við tveimur rafsuðuhjálmum að gjöf frá Lionsklúbbnum Hæng. Gjöfin var afhent á þorrafundi Hængs á dögunum.

Adam var gestur á jólafundi Hængs og kynnti þá áhugavert verkefni sem hann hefur tekið þátt í ásamt hjónunum Jóhönnu S. Norðfjörð og Haraldi  Pálssyni eigendum Áveitunnar á Akureyri en þau hafa um árabil staðið fyrir verkefni við ABC skólann í Burkina Faso. Skólinn heitir Ecole ABC de Bobo og er í borginni Bobo-Dioulasso sem er næst stærsta borg Burkina Faso. Um 1100 börn stunda nám í skólanum sem er staðsettur í fátækrahverfi í borginni og hefur notið góðs af verkefninu sem Adam segir að hafi sífellt undið upp á sig, alltaf bætist við og endalaust sé hægt að gera betur og meira.

Adam sýndi klúbbfélögum myndir frá verkefninu sem er að hans sögn margþætt en snýst m.a. um borun eftir vatni og áveituframkvæmdir. Vatnið er nýtt til  neyslu og einnig er því veitt úr borholum á akra með áveitukerfum svo hægt sér að rækta grænmeti og matvæli allt árið, en ekki einungis yfir regntímann eins og áður var.

Hjálmur veitir vörn

Á myndum sem Adam sýndi má sjá tvo menn við rafsuðu án nokkurs hlífðarbúnaðar. Það fannst Lionsfélögum algjörlega óviðunandi og söfnuðu í snarti fyrir tveimur rafsuðuhjálmum.  Adam er á leið til Burkina Faso í næstu viku, 1. febrúar og tekur hjálmana með. „Þessir hjálmar veita vörn gegn neistaflugi og rafsuðublindu og dregur þar með úr hættu á að mennirnir slasi sig við störf sín,“ segir Adam en þeir hafi fram til þessa ekki haft yfir slíkum búnaði að ráða. Eina vörnin sem í boði er á þessu slóðum eru sólgleraugu sem vitaskuld gera ekkert gagn.

  Sólgleraugu veita ansi litla vörn

Með 160 tölvur í farteskinu

Í ferðinni sem fram undan er verður eitt af verkefnum Adams að setja upp tölvustofu í skólanum, en hann hafði frumkvæði að því að safna saman tölvum sem sendar hafa verið til Burkina Faso. „Ég byrjaði í janúar í fyrra að leita eftir tölvum og má segja að það hafi gengið mjög vel,“ segir hann. Hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri var verið að skipta út borðtölvum fyrir fartölvur og fékk Adam þar á einu bretti um 100 borðtölvur. Adam starfaði í eina tíð sem kerfisstjóri hjá VMA og þekkir vel til i skólanum.  „Hugmyndin er að setja upp tölvustofu í skólanum og færa nemendur aðeins nær nútímanum með því að bjóða upp á þokkalegar tölvur fyrir þau að læra og vinna á.

Þá fékk hann um 50 fartölvur frá Vodafone og Sýn, en þar var verið að skipta um tölvur hjá starfsfólki. „Ég bauðst til að koma tölvunum í góða endurnýtingu og svo sannarlega munu þessar tölvur koma að góðum notum,“ segir Adam. Þeir nemendum sem eru að útskrifast frá skólanum og á leið í háskólanám fá hver um sig eigin fartölvu að gjöf á þeim tímamótum. „Við leysum krakkana út með því að gefa þeim fartölvu þannig að þau standa betur að vígi í því námi sem þau eru að hefja,“ segir hann.

Hópurinn sem lýkur námi við ABC skólann í vor er fjölmennur, 24 nemendur og því mikið lán að hafa yfir nægu magni að ráða. Í fyrsta hópum sem fékk fartölvu voru tveir og í fyrra voru þeir 6 talsins. „Það munar öllu fyrir þessa krakka að eiga fartölvu, en mikil fátækt er í landinu og ekki á allra færi að eignast tölvu,“ segir Adam.

   Adam með útskriftarhópum í fyrra. 

Athugasemdir

Nýjast