Líneik vill leiða lista Framsóknarflokksins

Líneik Anna.
Líneik Anna.

Líneik Anna Sævarsdóttir þingkona býður sig fram í 1. sæti framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í haust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Líneik. Hún hefur verið Alþingismaður Norðausturkjördæmis 2013-2016 og 2017-2021, eftir að hafa starfað að sveitarstjórnarmálum frá 1998.

Á Alþingi hefur hún starfað í allsherjar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og  í Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál. 

Meðal baráttumála hennar eru jafnrétti og jafnræði íbúa landsins og þar með góðar samgöngur, bæði í raunheimum og netheimum.

"Samgöngur eru lykill að tækifærum og árangri í samfélagsþróun. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er grundvöllur íslensks efnahagslífs og því  þarf samspil manns og náttúru að vera viðvarandi viðfangsefni stjórnmálanna. Markvissar aðgerðir í umhverfismálum eru mikilvægar og þurfa að byggja á upplýstri umræðu. Líneik er tilbúin að fást á við öll þau verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir hverju sinni hvort sem það eru náttúruöflin, farsóttir eða eitthvað allt annað. Eitt stærsta verkefnið framundan er að fjölga störfum og styrkja atvinnulífið í kjölfar COVID 19," segir Líneik. 

Í Norðausturkjördæmi fer fram póstkosning og munu valdagar standa frá 1. mars til og með 31. mars 2021.  Kosið verður um sex efstu sætin á framboðslistanum. Kjörskrá lokar 30 dögum fyrir valdag póstkosningarinnar eða laugardaginn 30. janúar 2021. Framboðsfrestur rennur út sunnudaginn 14. febrúar klukkan 12 á hádegi 15 dögum fyrir valdag.

Líneik Anna á heima á Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggð þar sem hún hefur búið í aldarfjórðung, hún er uppalin á Fljótsdalshéraði en hefur auk þess búið um tíma á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi. Líneik Anna er gift Magnúsi Ásgrímssyni og eiga þau 4 börn á aldrinum 20-31 árs, auk tveggja barnabarna. Líneik er líffræðingur með kennsluréttindi og hefur lengst af starfað við fræðslumál og stjórnun; við kennslu, verkefnastjórn og sem skólastjóri á Fáskrúðsfirði.

 


Nýjast