Nýsköpunarfyrirtækið Orkey mun í þessum mánuði hefja framleiðslu á vistvænu eldsneyti - lífdísil - sem er að mestu unnið úr úrgangssteikingarolíu og dýrafitu, en einnig úr öðrum úrgangi. Stefnt er að framleiðslu á 300 tonnum af lífdísil á fyrsta starfsárinu og er áætlað að fyrst um sinn muni starfsemi Orkeyjar skapa 2-3 ársverk auk nokkurra afleiddra starfa.
Fyrirtækið Orkey ehf. var stofnað í febrúar árið 2007 og hefur síðan þá kannað ýmsa möguleika á framleiðslu lífdísils, jafnt úr erlendu sem innlendu hráefni. Tilgangur Orkeyjar er að stuðla að sjálfbærri framleiðslu og notkun endurnýjanlegra orkugjafa og mun fyrirtækið leitast við að taka þátt í framförum á því sviði. Hluthafar Orkeyjar eru þrettán talsins. Þeir eru Aura Mare, N1, Stofnverk, Tækifæri, Arngrímur Jóhannsson, Hafnasamlag Norðurlands, Mannvit, Norðurorka, Brim, HB Grandi, Höldur, Ágúst Torfi Hauksson og LÍÚ.