Líðan atvinnulausra karla slæm og verri en kvenna

Halldór Guðmundsson lektor við Háskóla Íslands var gestur á fundi almannaheillanefndar nýlega og kynnti þar upplýsingar og rannsóknir um áhrif langtíma atvinnuleysis á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið. Hér á landi er miðað við langtíma atvinnuleysi þegar fólk hefur verið án vinnu í 6 mánuði. Um 60% þeirra sem nú eru á skrá á landinu öllu hafa verið án vinnu svo lengi.

 Á Akureyri er hlutfall þeirra sem verið hafa án atvinnu í ár eða lengur um 31%. Á landsvísu eru flestir langtíma atvinnulausir í aldurshópnum 25-29 ára. Fram kom í máli Halldórs að afleiðingar atvinnuleysis séu félagslegar, heilsufarslegar (sálrænar, geðrænar, líkamlegar) sem og fjárhagslegar. Þeir þættir sem hafa áhrif á alvarleika afleiðinga atvinnuleysis eru lengd atvinnuleysis, umfang atvinnu, félagsleg tengsl í og utan vinnu, umhverfi og fjölskylda, persónuleikaþættir og fordómar. Halldór benti á að skoða þyrfti stöðu og líðan atvinnulausra karlmanna þar sem rannsóknir sýna að líðan þeirra er slæm og verri en kvenna. Sýnt hefur verið fram á góð áhrif starfsendurhæfingar á líðan þátttakenda. Ný rannsókn sem gerð var meðal langtíma atvinnulausra á Akureyri sýnir að þegar fólk hefur verið á skrá í u.þ.b. 20 mánuði þá hættir ástandið að versna og viðkomandi virðist vera búinn að gefast upp. Því ættu úrræði að beinast að tímanum fyrir 20 mánuði.

Í umræðum um erindi Halldórs kom fram að atvinnuleitendum í aldurshópnum 25-29 ára fjölgar. Þar er gjarnan um að ræða fólk með börn á framfæri. Hætta er á að fólk einangrist og eigi erfitt með að komast í úrræði. Horfa þarf sérstaklega til þessa hóps núna. Fram kom að fólk sem ekki hefur bótarétt kemur ekki fram í tölum um atvinnuleysi. Þetta kemur fram í fundargerð almannaheillanefndar.

Nýjast