Leikdómur - Geðveik sýning

Gaukshreiðrið er sýnt í Freyvangsleikhúsinu    Mynd aðsend
Gaukshreiðrið er sýnt í Freyvangsleikhúsinu Mynd aðsend

Freyvangsleikhúsið frumsýndi 16.febrúar,Gaukhreiðrið eftir samnefndri bók Ken Kensey og leikgerð Dale Wasserman í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar.
Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson. 

Það var mikil eftirvænting í loftinu þegar ég fór ásamt móður minni í leikhús sl föstudagskvöld. Þokan lá þétt í firðinum og varla hægt að sjá og finna leikhúsið fyrir henni. Þegar inn var komið, tók við troðfullur salur af fólki  og eftirvæntingin lá í loftinu enda frumsýning.

Síðan hefst sýningin.

Leikverkið segir sögu indíanahöfðingjans Bromden sem hefur verið lengi á geðsjúkrahúsi í Bandaríkjunum. Bromden segir frá komu R.P. McMurphy á deildina og hvaða áhrif hann hafði á sjúklinga og starfsfólk hælisins. McMurphy hafði séð sér leik á borði og leikið sig geðveikan til þess að losna við fangelsisvist. Hann lendir þar í útistöðum við frú Ratchet forstöðukonu hælisins sem stjórnar hælinu vægast sagt með harðri hendi.

Frá fyrstu mínútu varð ég fyrir mikilli upplifun. Leikmynd, förðun, búningar, grafík, hljóð og ljós spiluðu saman til að mynda frábæra heild. 

Hver leikarinn af fætur öðrum inn á svið með frábæra frammistöðu. 

Það væri svo freistandi að telja upp nöfn en það er of mikið, því það eru svo margir sem skapa frábæra heild, innan sviðs og utan. 

Það hefur mikil áhrif að hér er um að ræða sögu sem gæti verið sönn. Vitandi það, fann ég allan tímann fyrir ógninni og spennunni gagnvart ægivaldi forstöðukonunnar. Ógnin á hælinu var áþreifanleg. 

Gaukshreiðrið er hrollvekjandi, sorgleg, bráðfyndin og skemmtileg sýning um meðferð sem geðsjúkir fengu áður. Skurðaðgerð, þar sem skorið var í fremsta hluta heilans, hið svokallaða ennisblað eða framheila. Aðgerðin gat stundum linað andlegar þjáningar fólks en olli líka miklum og oft alvarlegum persónuleikabreytingum. 

Þarna er á ferðinni afar góð uppsetning, einstaklega góð hlutverkaskipan og leikstjórn en líka gríðarlega vönduð vinnubrögð í allri uppsetningunni. 

Ég og móðir mín sem fórum saman á frumsýninguna vorum verulega hátt uppi þegar við keyrðum í bæinn eftir sýningu. Við töluðum mikið og ræddum sýninguna. Það var í senn óhugur í okkur en líka gleði því á köflum var sýningin svo bráðfyndin. Við vorum sammála um að þessi sýning væri fyrir alla fullorðna. Reyndar var ég í svo mikilli geðshræringu eftir sýningu að ég var nálægt því að bresta í grát. Það er nú ekki mikið betra leikhús en það, sem kemur manni til að hlæja og grenja. 

Til hamingju með þessa sýningu.

Hún er einfaldlega geðveik!!!!

   Pétur Guðjónsson fór  í leikhús


Athugasemdir

Nýjast