Leiðaval milli Eyjafjarðar og vesturhluta landsins

Jónas Guðmundsson.
Jónas Guðmundsson.

Eyfirðingum og Þingeyingum eru færðar heillaóskir með Vaðlaheiðargöngin nýju sem án nokkurs vafa eiga eftir að efla mjög og styrkja byggð og atvinnulíf svæðisins.   

Barátta fyrir áframhaldandi bættum samgöngum milli landshluta og svæða heldur þó áfram og löngu tíma-bært er að huga að þeim kostum sem bjóðast til bættra tenginga Norðausturlands við suðvestur- og vesturhluta landsins. Æskilegt er að það verði sem fyrst þar sem tillaga að  samgönguáætlun til næstu 15 ára eða allt til ársins 2033 er til lokameðferðar á Alþingi og ekkert komið inn á styttingar þessa leið þar. Þrír kostir hafa einkum verið nefndir í almennum umræðum, þ.e. stytting um Húnavallaleið (14 km) ásamt með Vindheimaleið (6 km), vegur um Kjöl (sem stytti leið milli Akureyrar og Reykjavíkur um  allt að 47 km) og loks göng undir Tröllaskaga (sem styttu leið milli Akureyrar og Sauðárkróks um ca. 30 km).

Val um leiðir

Það er mat undirritaðs að á allan hátt sé farsælast og raunhæfast að ráðgera vegi um Húnavallaleið - og Vindheimaleið. Vegir þá leið gætu orðið að veruleika innan fárra ára ef allt gengur að óskum og Alþingi fellst á að gera ráð fyrir þeim í samgönguáætlun þannig að taka megi þá inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þá mætti vel sjá fyrir sér að þeir yrðu hafðir breiðari en nú tíðkast, jafnvel svonefndir 2 + 1 vegir, sem þyldu hærri hámarkshraða. Flest bendir til að fjármagna mætti þá með veggjöldum eingöngu, slík er arðsemin auk alls annars ávinnings.

Þótt tillaga fimm þingmanna til þingsályktunar „um endurnýjun vegarins um Kjöl með einkaframkvæmd“ sem nú liggur fyrir Alþingi, sé áhugaverð - og skal hér lýst yfir fullum stuðningi við hana - verður vegur þá leið sennilega seint heilsársleið eða traust flutningaleið enda ekki ráð fyrir því gert í tillögunni og bættur vegur þessa leið á án efa eftir að mæta andstöðu náttúruverndarfólks.

Hugmyndir um veggöng undir Tröllaskaga milli Hjaltadals og Hörgárdals, sem styttu leið milli Sauðárkróks og Akureyrar úr 120 km í um 90 km er vissulega áhugaverð, a.m.k. við fyrstu sýn. Vart telst hún þó raunhæf sem kostur á móti Húnavalla- og Vindheimaleið enda hentuðu göngin fyrst og fremst til að tengja þéttbýlisstaði á Norðurlandi vestra og Eyjafjarðarsvæðið.

Hugsanlegar jarðgangaleiðir miðað við að munni ganga sé í 300 metra hæð á hverjum stað. Grunnkort:  Landmælingar Íslands.

Í skýrslu um þessi göng sem gerð var 2003 og vísað er til í umsögn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) til samgöngunefndar Alþingis segir m.a.:  „Styttri og öruggari leið milli Akureyrar og Reykjavíkur:  Veggöng milli Hofsdals og Barkárdals með gangnamunna í um 300 metra hæð virðast verða löng, rúmir 20 km.  . . . . . . Göng þarna og leiðin um Þverárfjallsveg myndu stytta veg milli Akureyrar og Reykjavíkur um 8 km og hvorki þyrfti að fara Öxnadalsheiði né Vatnsskarð. Trúlega má stytta þessa leið enn um 10 km með vegstyttingum. Vegstyttingar á hringveginum um Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð hafa verið í umræðu og mat skipulagsráðgjafa er að þær styttingar verði ekki eins miklar og fást með veggöngunum og Þverárfjallsvegi og þá þarf enn að fara Heiðina og Skarðið.“ Af þessu og þeim gangakostum sem kortið sýnir má ljóst vera að gerð gagna þessa leið getur vegna óheyrilegs kostnaðar við gerð þeirra og síðan rekstur aðeins verið fjarlægur draumur enda engar rannsóknir farið fram. Slíkir draumar geta engan veginn átt erindi  í umræðu dagsins um aðrar vegstyttingar milli landshlutanna og raunar ábyrgðarhluti af þeim sem til þekkja að blanda þeim saman.

Viðbrögðin

Samgöngufélagið kom tillögum sínum um að gert yrði ráð fyrir Húnavalla- og Vindheimaleið í samgönguáætlun á framfæri við samgöngunefnd Alþingis á vef þingsins með umsögn 19. október sl. og vakti jafnframt athygli allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og vestra og samtaka þeirra á þeim. SSNV ályktaði gegn þeim með þeim rökum að margar brýnni framkvæmdir en þessi biðu í landshlutanum og það

þótt tillögurnar miðuðu við einkaframkvæmd og engin útgjöld af almennu vegafé. Svipuð rök komu frá Húnavatnshreppi þar sem Húnavallaleið lægi að meginstefnu til. Viðbrögð bárust hvorki frá Sveitarfélaginu Skagafirði né Akrahreppi. Þá verður ekki séð að nein viðbrögð hafi komið frá Eyþingi eða öðrum sveitarfélögum á Norðurlandi eystra en Dalvíkurbyggð, sem studdi tillögur Samgöngufélagsins. Á fundi bæjaráðs Akureyrar 29. nóvember sl. var svohljóðandi tillaga samþykkt:  „Lagt fram bréf frá Samgöngufélaginu um tillögur þess varðandi breytingar á vegstæðum þjóðvegar 1 í landshlutanum.  Bæjarráð Akureyrar telur brýnt að allir möguleikar séu skoðaðir til að stytta leiðina milli Norðurlands og vesturhluta landsins og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi, skemmri aksturstíma, minni eldsneytisnotkun og mengun. Með lægri flutningskostnaði eykst einnig samkeppnishæfni Norðausturlands.“   Þótt Húnavalla- og Vindheimleiðir séu ekki nefndar er vart um aðra kosti að ræða.  

Því miður er ekki að sjá að þessar tillögur Samgöngufélagsins hafi fengið hljómgrunn annars staðar á opinberum vettvangi né fengið efnislega meðferð á þinginu. Vilji íbúar á Norðurlandi eystra og vegfar-endur sjá þessa styttingar verða að veruleika sýnist ekki annað að gera en hvetja og vonast til en þingmenn kjördæmisins láti málið til sín taka.  Einnig má styðja þessar hugmyndir með því að skrá nafn sitt á vefnum www.island.is.  Það hlýtur að muna um allt að 20 km styttingu!

-Höfundur er áhugamaður um greiðar samgöngur og fyrirsvarsmaður Samgöngfélagsins, www.samgongur.is

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast