Laxárdeilan rifjuð upp á sýningu í Safnahúsinu á Húsavík

Sigurlaug Dagsdóttir þjóðfræðingur frá Aðaldal. Mynd/aðsend.
Sigurlaug Dagsdóttir þjóðfræðingur frá Aðaldal. Mynd/aðsend.

Aðaldælingurinn Sig­ur­laug Dagsdóttir lauk meist­ara­námi í hag­nýtri þjóð­fræði frá Háskóla Íslands í vor. Loka­verk­efni hennar var sýn­ing í Menn­ing­ar­mið­stöð Þing­ey­inga helguð ljós­mynda­söfnum tveggja ljós­mynd­ara, þeirra Sig­ríðar Ingv­ars­dóttur og Ragn­heiðar Bjarna­dótt­ur. Sig­ríður var atvinnu­ljós­mynd­ari en Ragn­heiður áhuga­ljós­mynd­ari og eru söfnin því um margt ólík. Sýn­ing­in heitir Að fanga þig og tím­ann.

Vikublaðið ræddi við Sigurlaugu á dögunum en hún er nú komin á fullt í undirbúningi fyrir nýja sýningu í Safnahúsinu á Húsavík þar sem m.a. Laxárdeilan er viðfangsefni

Sigurlaug hefur sterkar taugar til sveitarinnar enda alin upp í Aðaldal þar sem ræturnar hafa fengið að dafna. Menning og hefðir íslensku þjóðarinnar hafa lengi átt hug hennar allan og þeim er hana þekkja kom eflaust lítið á óvart að hún félli fyrir þjóðfræði. „Mjög góð vinkona mín var í þjóðfræði og smám saman sá ég að það sem hún var að gera í þessu námi var allt eitthvað sem mér fannst spennandi. Hvort sem það voru íslenskar sagnir, norræn trú eða hefðir. Og svo bara alþýðumenning yfir höfuð. Ég sá að þetta kom líka inn á ritmál, bókmenntir og sagnfræði þannig að þetta sameinað  allt sem mér finnst spennandi og skemmtilegt,“ útskýrir Sigurlaug aðspurð um hvers vegna hún lagði þjóðfræðina fyrir sig. „Ég sótti um, komst inn og sé alls ekki eftir því.“

Sigurlaug hefur undan farin ár verið sumarstarfsmaður hjá Menningarmiðstöð Þingeyinga, m.a. á Grenjaðarstað. „Ég hef líka tekið að mér sér verkefni fyrir safnið sem við höfum svo sótt um styrki fyrir. Á meðan ég hef verið í náminu, þá hef ég fengið að vera með annan fótinn hjá þeim,“ segir hún.

Ný sýning í burðarliðnum

Um þessar mundir stendur yfir vinnan við gerð og uppsetningu nýrrar sýningar í myndlistasal Safnahússins á Húsavík sem rekið er undir hatti Menningarmiðstöðvarinnar. Sigurlaug er sýningarstjóri verkefnisins sem ber vinnuheitið Laxárdeilan- nýr tónn í náttúruvernd á Íslandi. Verkefnið fékk 1.7 m kr. styrk úr safnasjóði.

„Sýningin fjallar um Laxárdeiluna en tekst líka á við Laxá sem fyrirbæri. Áin sem bændur lögðu sig í líma við að vernda. En sýningin tekst ekki síður á við viðfangsefnið sem er  náttúran við Laxá og samfélagið á svæðinu. Við erum að reyna segja sögu hvors tveggja,“ útskýrir Sigurlaug og ekki leynir sér að viðfangsefnið á huga hennar allan.

Laxárdeilan:

Snemma á áttunda áratug síðustu öld hófst mikið andóf bænda í S-Þingeyjasýslu gegn fyrirætlunum yfirvalda um að virkja Laxá. Deilurnar náðu hámarki er Mývetningar sprengdu stífluna við Miðkvísl efst í Laxá 25. ágúst 1970. Hundrað og sextíu manns voru við stífluna þegar hún var sprengd og fjölmargir lýstu verknaðinum á hendur sér en þrír menn munu hafa verið að verki. Sextíu og þrír voru á sínum tíma dæmdir og fengu þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Þingeyingar óku í tvö hundruð bíla lest til Akureyrar 18. júlí 1970 og afhentu bæjarstjórn Akureyrar mótmæli þar sem sagði meðal annars að yrði haldið áfram að ögra Þingeyingum skapaðist hættuástand í héraði sem gæti leitt til óhappa sem þeir gætu ekki borið ábyrgð á. Mánuði síðar var stíflan sprengd. Heimild: Wikipedia.

Laxárdeilan Syning

 

Vinna við gerð og uppsetningu nýrrar sýningar í myndlistasal Safnahússins á Húsavík stendur yfir um þessar mundir. Sigurlaug Dagsdóttir er sýningarstjóri verkefnisins sem ber vinnuheitið Laxárdeilan- nýr tónn í náttúruvernd á Íslandi. Mynd:Safnahúsið á Húsavík / Menningarmiðstöð Þingeyinga.

 

Sigurlaug segir að það hafi átt sér nokkurn aðdraganda hvernig efnistök sýningarinnar var valin. „Við vorum að velta fyrir okkur hvaða sýningarefni við ættum að taka fyrir, hvort við ættum að sækja um styrk fyrir nýrri sýningu af því að nú eru að verða þrjú ár síðan ég setti síðast upp sýningu í safninu. Þannig að það var orðin ástæða til að gera eitthvað annað,“ segir hún.

Mikilvægt að fjalla um umhverfismál

Náttúruvernd og loftslagsmál hafa verið mikið í almennri umræðu og á hinum pólitíska vettvangi og segir Sigurlaug að sú umræða þurfi að skila sér inn í söfnin. Söfnin geti haft mikið fram að færa eins og að spegla söguna í samtímanum. „Það hefur verið mikil umræða um það í safnaheiminum að söfn þurfi að leggja meira af mörkum þegar kemur að umræðu um náttúruvernd og loftslagsvá og annað slíkt. Söfn verða að taka aukin þátt í þessari umræðu. Okkur fannst vera kjörið tækifæri til þess að fjalla um þessa mikilvægu hluti sem Laxárdeilan er og um leið er viðfangsefnið tekið beint úr nærsamfélagi safnsins. Þetta tveir þættir eru sameinaðir á sýningunni,“ segir Sigurlaug.

Sýninguna segir Sigurlaug muni verða mjög fjölbreytta og draga fram viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum. „Þetta er allt í bland, þetta eru myndir, munir, texti og skjöl. Þetta verður mjög þjóðfræðileg sýning. Þjóðfræðingar hafa mjög gaman að því að nálgast fjölbreyttari heimildir og þetta er akkúrat þannig sýning,“ segir hún og bætir við að stefnt sé að opnun síðar í haust.  

„Það er ekki kominn sýningardagur en við vonumst til að ná að opna sýninguna í seinnipart nóvember. Ef ekki, þá munum við opna í janúar svo við lendum ekki í miðri jólakösinni,“ segir Sigurlaug Dagsdóttir að lokum.

 


Athugasemdir

Nýjast