Lausnamiðað jólahald á Húsavík

Nú þegar landsmenn eru í óða önn við að undirbúa jólahaldið í skugga kófsins skoðar Vikublaðið ýmis áhrif af samkomutakmörkunum á jólahald Þingeyinga. Ljóst er að sveitarfélagið Norðurþing hefur aflýst viðburðum sem alla jafna fara fram um jól og áramót. Veitingastaðir verða fyrir gríðarlegu tekjutapi þar sem engin jólahlaðborð geta farið fram og sömuleiðis var útlitið dökkt fyrir hangikjötsframleiðslu hjá Norðlenska á Húsavík í fjarveru jólahlaðborðanna.

Neyðin kennir naktri konu að spinna eins og sagt er en skapandi lausnir virðast ætla að bjarga vertíðinni.

 Viðburðasnautt um jól og áramót

Það kemur eflaust ekki á óvart að sveitarfélagið Norðurþing hefur aflýst öllum helstu viðburðum sem öllu jafna fara fram um jól og áramót. Leiksskólabörn sáu um tendrun bæjarjólatrésins í ár og þar fór því ekki fram hefðbundin dagskrá. Þó hefur Fjölskylduráð samþykkt að aflýsa bæði áramóta- og þrettándabrennu þetta árið. Þetta er vitaskuld vegna áframhaldandi samkomutakmarkana vegna Covid-19 faraldursins en sveitarfélagið vill með þessu leggja sitt af mörkum við að halda veirunni í skefjum þar til bóluefni kemur á markað.

Íbúar Húsavíkur þurfa þó ekki að örvænta því Kiwanisklúbburinn Skjálfandi mun standa fyrir árlegri flugeldasýningu.Flugeldar

Það er stefnt á flugeldasýningu í tengslum við flugeldasölu Kiwanis en hún verður eflaust einhverjum dögum fyrir áramót til að auglýsa söluna. Flugeldasalan verður óbreytt að því marki sem sóttvarnareglur leyfa en samkvæmt upplýsingum frá Kiwanis kúbbnum kemur til greina að lengja opnunartíma til að dreifa álaginu. Búið er að fá öll tilskilinn leyfi og verður salan skipulögð með sama hætti og aðrar verslanir hafa gert í kófinu.

Fagna afmæli við óvenjulegar aðstæður

Veitingahúsið Salka á Húsavík er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem fagnar 20 ára afmæli í vikunni. Guðrún Þórhildur Emilsdóttir veitingamaður á Sölku sem staðið hefur vaktina frá því heimsfaraldurinn komst á skrið í mars segir í samtali við Vikublaðið að ástandið komi í veg fyrir vegleg veisluhöld. „Á fimmtudag [10. des.] ætlum við þó að vera með afmælistilboð á sígildum réttum sem við höfum verið með í gegnum tíðina en veisluhöld verða kannski bara síðar þegar aðstæður leyfa,“ segir hún.

Guðrún segir að síðustu mánuðir hafi verið erfiðir vegna samkomutakmarkana en það megi alltaf gera gott úr stöðunni. „Það er vissulega leiðinlegt að þurfa að Guðrún Þórhildurvísa fólki frá því það mega bara vera níu gestir inni í einu en við reynum að hugsa í lausnum og höfum verið að gera góða hluti í „take away“. Svo erum við með fría heimsendingu á mat í hádeginu, segir Guðrún.

Það er ljóst að engin jólahlaðborð verða haldin á veitingastaðnum þessi jólin en þau hafa verið mikilvæg í rekstrinum undan farin ár. Þess í stað er Salka að bjóða upp á jólahlaðborð til að taka með heim og að sögn Guðrúnar hafa jólahlaðborðspakkarnir slegið í gegn hjá bæjarbúum. „Þetta er búið að vera mjög vinsælt og er algjörlega að bjarga því sem bjargað er. Þessu hefur verið mjög vel tekið hjá okkur og við erum mjög þakklát fyrir það. Þetta eru í raun og veru hefðbundnir hlaðborðsréttir í svona snittuformi. Allt frá purusteik, gæs, hangikjöt, rækjur, síld og fleira gott. Við erum náttúrlega með tvo frábæra matreiðlsumeistara hjá okkur. Þeir gera alveg ótrúlegustu hluti og aðlaga sig fljótt að breyttum aðstæðum,“ segir Guðrún.

Reykja fyrir alla landsmenn

Hangikjötið hefur verið ómissandi á jólahlaðborðum landsmanna svo lengi sem menn muna og þar sem engin jólahlaðborð fara fram í ár mátti því búast við aðSimmi Hreiðars sala á hangikjöti hjá Norðlenska yrði eitthvað minni í ár miðað við fyrri ár. Það virðist þó ekki vera raunin samkvæmt Sigmundi Hreiðarsyni framleiðslustjóra Norðlenska á Húsavík en í stað jólahlaðborðanna hefur það færst í aukana að fyrirtæki á svæðinu gefi starfsfólki sínu hangikjöt í jólagjöf. Sigmundur segir í samtali við Vikublaðið að Kófið hafi lítið verið að setja strik í reikninginn hjá fyrirtækinu. „Það eina sem hægt er að nefna eru þessi svo kölluðu jólahús sem verið hafa í Netto búðunum og í Nóatúni. Þar höfum við verið að selja ópakkað hangikjöt í búðunum en það er ekki leyft í dag. Það er svona það helsta sem við finnum fyrir. Að öðru leyti er mjög góð sala til fyrirtækja,“ segir hann og bætir við að salan sé mjög góð í ár. „Við getum sagt að ef hver Íslendingur borðar eina máltíð með hefðbundnum skammti af kjöti, þá erum við að framleiða handa öllum Íslendingum. Framleiðslan samsvarar s.s. einni máltíð fyrir hvert mannsbarn á Íslandi,“ útskýrir Sigmundur að lokum.


Athugasemdir

Nýjast