Lambaprime og Guðrúnarsalat

“Ég var að hugsa um að bjóða uppá grillað lambaprime með kartöflubátum, gráðostasósu og dásamlegu Guðrúnarsalati. Þessar uppskriftir duga fyrir 4-5 eftir matgæðingum”, segir Sigfús Karlsson, sem er matgæðingur vikunnar.

Kjöt:

800-1000 gr. af Lambaprime frá Norðlenska að sjálfsögðu.  Kryddað og grillað eftir smekk hvers og eins.  Ég nota yfirhöfuð bara pipar og salt.

Sósa:

Þessa sósu uppskrift fékk ég frá manni sem þekkti mann sem þekkir hinn landsfræga Tony Jónas Jose Mellado og ég vona að hann fyrirgefi mér að uppljóstra þessari dásamlegu sósu.

Safi úr 2-3 dósum af niðursoðnum sveppum

1 gráðostur

½ líter rjómi

2 grænmetisteningar

2 gömlu góðu súputeningar ( sem eru ófáanlegir í dag) í staðinn set ég ¼ til ½ tening af kjötkrafti frá Knorr en þeir eru svolítið saltir að mínu mati.

Gott er síðan að setja teskeið eða matskeið af sojasósu á eftir.

Setjið safan af sveppunum, gráðostinn og teningana saman í pott og bræðið ostinn alveg.  Bætið rjómanum síðan útí og haldið ykkur nú, látið malla í klukkutíma, verður bara  betri fyrir vikið.  Setjið síðan sveppi úr einni dós útí, sojasósuna og sósulit ef þið viljið.

Kartöflur:

2-3 meðalstórar kartöflur á mann eða samtals 10-15.

Skerið kartöflurnar í báta og setjið í poka.  Vel af olíu stráð yfir, basiliku kryddi ( þurru) stráð yfir eftir smekk.  Pokinn síðan hristur og innihaldið sett í ofnskúffu.  Maldonsalti stráð yfir c.a. tveimur klípum og sett í ofn á 180-200° í 40 mín.  Mismunandi er þó eftir ofnum og persónulega vil ég hafa kartöflurnar vel steiktar.  Einnig má brytja niður nokkra teninga úr sætri kartöflu og setja með en þær mega ekki vera lengur inní en 15-20 mín.

 Salat:

Lambhagasalat tvö höfuð

2 perur

1 askja jarðaber

Skorið niður og blandað saman, afhýðið perurnar.

Maple sýróp, rúmlega hálfur dl. Má vera heill dl.

Valhnetur einn poki.

Hneturnar muldar niður og settar í pott ásamt sýrópinu, hitað aðeins og sett ofan á salatið.

Mjög gott að strá gráðosti yfir salatið, nú eða bera hann bara sérstaklega með í skál svo hver og einn geti gert það sjálfur þar sem gráðostur er ekki alveg allra.

 Og smá svona í eftirrétt.

Ostakaka:

 Í botninn nota ég einn pakka Lu kanilkex og mil það vel niður. Sett í pott og hita með smá smjöri til að binda saman.  Síðan sett í form.

½ líter vanilluskyr og pela af þeyttum rjóma blandað saman og sett ofan á.

 Skreytt með allskonar berjum og/eða ávöxtum

 Verði ykkur að góðu.

 Ég vil svo skora á svilkonu mína Bryndísi Valgarðsdóttur, skólastjóra í Hlíðarskóla til að vera með dásamlegar uppskriftir í næsta matarkrók.  Bryndís er snillingur og hlakka ég alltaf til að fara í mat til hennar.

Nýjast