Frá 4. febrúar sl. hefur rs. Árni Friðriksson verið við rannsóknir og mælingar á stærð loðnustofnsins, m.a. til að fylgjast með loðnugöngum við austan- og sunnanvert landið. Stærð veiðistofnsins samkvæmt þessum mælingum er 608 þúsund tonn af kynþroska loðnu. Áður en ofangreind mæling fór fram er áætlað að veidd hafi verið 180 þúsund tonn af loðnu og því er áætluð stærð stofnsins, sem lögð er til grundvallar aflamarksútreikningum, 788 þúsund tonn. Eins og kunnugt er var stærð stofnsins mæld 725 þúsund tonn dagana 6.-22. janúar s.l. Í kjölfar þeirrar mælingar lagði Hafrannsóknastofnunin til við ráðuneytið að leyfilegur hámarksafli á vertíðinni 2010/2011 yrði ákveðinn 325 þúsund tonn. Gildandi aflaregla gerir ráð fyrir að 400 þúsund tonn séu skilin eftir til hrygningar. Í ljósi þess leggur Hafrannsóknastofnunin til að leyfilegur hámarksafli á vertíðinni 2010/2011 verði ákveðinn 390 þúsund tonn. Er það 65 þúsund tonna aukning frá fyrri tillögu, segir í tilkynningu frá stofnuninni.