L-listinn ætlar að stjórna einn í meirihluta í bæjarstjórn

"Við ætlum að stjórna ein í meirihluta og ekki að fara viðræður við aðra flokka um það mál, enda þurfum við þess ekki," segir Geir Kristinn Aðalsteinsson oddviti L-listans, lista fólksins, sem hlaut hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar í kosningunum á laugardag. Þetta var ákveðið á fundi í gærkvöld og á við um bæjarráð og bæjarstjórn.  

Geir Kristinn segir að ekki sé búið að útfæra það hvernig raðað verður í nefndir bæjarins, en að framundan séu viðræður við aðra flokka í bæjarstjórn. "Varðandi nefndirnar viljum við virkja alla ellefu bæjarfulltrúana og erum skoða leiðir í þeim efnum.  Við leggjum mikla áherslu á það að í hverri nefnd fyrir sig sé fagfólk, fólk sem hefur þekkingu, reynslu og áhuga á málefninu. Það þarf mikinn fjölda fólks í allar nefndir bæjarins og munum við örugglega leita til hins almenna borgara í þeim efnum. Við eigum þrjá menn í hverri fimm manna nefnd og tvö menn í hverri þriggja manna nefnd," segir Geir Kristinn.

L-listinn var með á stefnuskrá sinni að stofna sérstaka atvinnumálanefnd og sagði Geir Kristinn að það væri verið að skoða núverandi nefndarskipulag og þá hvort geri þurfi einhverjar breytingar á því eða ekki. "Það er því mikil vinna í gangi og mun verða næstu daga."

Þá hefur verið ákveðið að auglýsa eftir faglegum bæjarstjóra til starfa og segir Geir Kristinn að sú undirbúningsvinna sé komin í gang.

Nýjast