Kynjuð fjárhagsáætlanagerð kallar á breytingar í hugsun og verki

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í vikunni fram lagða þriggja ára áætlun 2012-2014 með 6 atkvæðum gegn atkvæði Sigurðar Guðmundssonar A-lista. Andrea Sigrún Hjálmsdóttir V-lista, Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Hermann Jón Tómasson S-lista og Ólafur Jónsson D-lista sátu hjá við afgreiðslu.  

Á fundinum lagði Andrea Sigrún Hjálmsdóttir V-lista fram svohljóðandi tillögu: "Í tilefni af umræðu um þriggja ára fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar leggur bæjarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til að fylgt verði markaðri stefnu ríkisins og horft til áhrifa ráðstöfunar fjármuna á konur og karla og tekin upp vinnubrögð kynjaðrar fjárlagagerðar. Kynjuð fjárhagsáætlanagerð sem þessi kallar á breytingar í hugsun og ekki síður í verki en slíkar breytingar eru nauðsynlegar til að auka jafnrétti kynjanna, en tilgangurinn er að tryggja að allir bæjarbúar sitji við sama borð óháð kyni eins og lög gera ráð fyrir. Kynjuð fjárlagagerð horfir á fjárhagsáætlanaferlið út frá áhrifum á kynin. Þannig er tekju- og gjaldahlið fjárhagsáætlunar endurskipulögð til að tryggja að ráðstöfun fjármuna hafi jöfn áhrif á konur og karla. Á tímum niðurskurðar líkt og blasa við okkur nú er mjög mikilvægt að greina áhrif hagræðingaraðgerða á karla og konur og ekki er síður mikilvægt að auka gagnsæi í fjármálum sveitarfélagsins og gera enn betur sýnilegt hvernig opinberu fé er varið, en kynjuð fjárhagsáætlanagerð stuðlar einmitt að þeim markmiðum."

Fram kom tillaga um að vísa tillögu Andreu Sigrúnar til bæjarráðs og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Nýjast