Kvöldopnun í Lautinni í sumar

Lautin
Lautin

Lautin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, verður opin á þriðjudagskvöldum í sumar með fjölbreyttri dagskrá og verður fyrsta opnunin þann 16. júní. Þetta er viðbót við aðra þjónustu á vegum Lautarinnar. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun, auka lífsgæði þeirra sem glíma við geðræna sjúkdóma og draga úr fordómum í samfélaginu. Akureyrarbær tók í september síðastliðnum yfir rekstur og þjónustu Lautarinnar sem hafði áður verið samstarfsverkefni sveitarfélagsins, Rauða Krossins og Geðverndarfélags Akureyrar.

Í Lautinni er lögð áhersla á að skapa heimilislegt og afslappað andrúmsloft þar sem gestir koma á eigin forsendum. „Meðal þess sem er í boði er félagsleg samvera, göngutúrar og útivist. Hægt er að grípa í spil, púsla, lesa blöðin, fara í pílukast og horfa saman á íþróttaviðburði svo eitthvað sé nefnt, en auk þess er boðið upp á hádegisverð gegn vægu gjaldi,“ segir Ólafur Örn Torfason, forstöðumaður búsetuþjónustu geðfatlaðra, í samtali á Akureyri.is.


Athugasemdir

Nýjast