Krabbameinsfélagið gaf verkjadýnur
Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON) kom færandi hendi á dögunum og afhenti lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri svokallaðar verkjadýnur. Þær eru sérstaklega hannaðar fyrir sjúklinga með verki en reynast einnig vel sem legusáravörn.
„Við höfum hingað til þurft að forgangsraða þeim sem þurfa hvað mest á þessum dýnum að halda þar sem við áttum ekki nógu margar – núna verður þetta auðveldara fyrir okkur,“ segir Ester Þóra Bragadóttir, deildarstjóri lyflækningadeildar.
Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis er mikið í mun að styðja við krabbameinssjúklinga og í sameiningu við starfsfólk SAk var það lendingin að verkjadýnurnar væru mest aðkallandi. Enn fremur hefur félagið hug á því að styðja við líknarstarf á sjúkrahúsinu.
Fyrir um ári síðan styrkti KAON einnig almenna göngudeild SAk með kaupum á skjá sem hangir inni á biðstofu og sýnir efni sem er gagnlegt fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra. Þetta kemur fram á vefsíðu Sjúkrahússins á Akureyri.