Kostnaður við að reisa líforkuver er um 5 milljarðar króna

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra.

„Þetta eru að mörgu leyti jákvæðari niðurstöður en við þorðum að vona, þó enn séu auðvitað fjölmargar spurningar sem eftir á að svara. En við erum glöð með að hafa fengið þessa góðu skýrslu til að byggja á,“ segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, en samtökin létu gera frumhagkvæmnismat á hugsanlegu líforkuveri á Norðurlandi eystra og fyrir liggur skýrsla um málið.

Fram kemur í skýrslunni að fýsilegasti kostur undir líforkuver í fjórðungnum sé á Dysnesi í Hörgársveit. Kostnaður við uppbyggingu gæti numið ríflega 5 milljörðum króna, en hann er samkvæmt skýrslunni talinn borga sig upp á um 15 árum.

Ekki lengur í boði að urða allt

„Við erum þessa dagana að funda með sveitarstjórnunum á Norðurlandi eystra og kynna niðurstöður skýrslunnar, en við erum að vonast til að í framhaldinu verði hægt að stíga næstu skref sem þá fela í sér að ræða við hagsmunaaðila og svara þessum spurningum sem út af standa,“ segir Albertína. „Við vonumst til að það verði samstaða um að taka næstu skref, en við erum auðvitað í þeirri stöðu að það er ekki lengur í boði að urða allt eins og við höfum verið að gera.“

Hún segir líforkuver þá hugmynd sem fram hafi komið sem lausn í þeirri stöðu, „og það sem meira er að líforkuverið virðist vera lausn sem gæti staðið undir rekstri. Þarna erum við að tala um að taka úrgang og breyta í verðmæti – nýta úrganginn til að búa meðal annars til orku. Það hlýtur að vera eitthvað sem við þurfum að skoða af alvöru.“

Fram kemur að þegar sé unnið að nokkrum verkefnum á þessu sviði. Nefnt er að félagið Orkey framleiði lífdísel úr matarolíu, Molta vinnur moltu úr lífrænum úrgangi og Norðurorka framleiði metangas úr hauggasi úr aflögðum sorphaugum í Glerárdal. Með því að útvíkka starfsemi þessarar þriggja félaga og flytja í sameiginlegt líforkuver mætti bæta fleiri þáttum við starfsemina.

Tækifæri við endurvinnslu landbúnaðarúrgangs

Bannað er að urða dýrahræ og aukaafurðir dýra, en úrræði til förgunar eru ekki fyrir hendi hér á landi enná. Nefnt er að fyrir hendi séu tækifæri í fjórðungnum varðandi endurvinnslu landbúnaðarúrgangs, m.a. frá sláturhúsum, kjötvinnslum, kúamykju og búfjáráburðar sem dæmi.

Nefnt er í skýrlsunni að ávinningur getur verið tvíþættur, annars vegar að minnka losun úrgangs og hins vegar að skapa verðmæti úr þeim úrgangi sem til fellur.

Þrír staðir vorum einkum taldir koma til greina undir rekstur líforkuvers, Dysnes sem fyrr segir og einnig Þverá í Eyjafjarðarsveit og Bakki við Húsavík. Það sem Dysnes hafði fram yfir þá staði er að fjarlægð frá helstu uppsprettum úrgangs er minnst þaðan.

 


Athugasemdir

Nýjast