Konur í meirihluta í stjórn Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð

Konur eru nú í meirihluta í stjórn Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð, eða þrjár talsins á móti tveimur körlum.  Aðalfundur félagsins var haldinn á dögunum og kom Arnfríður Friðriksdóttir á Hálsi við Dalvík ný inn í stjórn í stað Þórsteins Jóhannessonar á Bárðartjörn sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs.   

Fyrir voru þær Sigríður Bjarnadóttir, Hólsgerði ritari félagsins og Ásta Fönn Flosadóttir, Höfða sem er varaformaður.  Þá sitja í stjórn þeir Birgir Arason, Gullbrekku sem er formaður og Guðmundur Sturluson, Þúfnavöllum, meðstjórnandi. Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem konur skipa meirihluta stjórnar FSE, en lengi framan af var hún eingöngu skipuð körlum og má því segja að enn eitt karlavígið hafi fallið. Þetta er athyglisvert, þegar það er haft í huga að rétt um 80% félagsmanna er karlkyns. Á  aðalfundinum fluttu þau  Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Sigurður Jóhannesson framkvæmdastjóri SAH á Blönduósi og Sigurður Þór Guðmundsson ráðunautur hjá Búgarði, erindi um málefni sem tengjast sauðfjárbændum.  

Nýjast