Konur í fyrsta sinn með hærri dagvinnulaun en karlar

Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju.
Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju.

„Þetta sýnir okkur að markmið lífskjarasamninganna hafa náðst, þær launahækkanir sem um var samið hafa skilað sér og gott betur,“ segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju.

Dagvinnulaun félagsmanna hafa hækkað og í fyrsta sinn eru konur með hærri dagvinnulaun en karlar, flestir vinna færri vinnustundir en áður og þeim fer fækkandi sem orðið hafa fyrir skerðingum af ýmsu tagi, í starfshlutfalli, launum eða bónusum. Fleiri hafa verið frá vinnu en áður vegna veikinda. Eining Iðja gerði könnun á stöðu og kjörum sinna félagsmanna í lok liðins árs þar sem þetta kemur fram.

Björn segir að þegar dagvinnulaun séu skoðuð miðað við 100% starf komi í ljós að þau hafi hækkuðu milli áranna 2020 til 2021 um 31 þúsund krónur og voru 458 þúsund krónur. Þegar launin voru skoðuð eftir kyni kom í ljós að karlar voru með 453 þúsund krónur í meðallaun í fyrra og höfðu hækkað um 13 þúsund krónur, en konur voru með 464 þúsund krónur og hækkun upp á 51 þúsund krónur milli ára.

„Þetta er í fyrsta skipti frá því við hófum að gera þessar kannanir fyrir rúmum áratug sem konur eru með hærri dagvinnulaun en karlar. Munurinn er ekki mikill en býsna merkilegt samt að sjá að hann er kominn fram,“ segir Björn. Nefndi hann að hátt hlutfall kvenna á dagvinnulaunum starfi hjá hinu opinbera, ríki eða sveitarfélögum og þar séu laun almennt hærri en á almenna markaðnum. „Það má vera að skýringin liggi þar, að þessi fjölmenni hópur kvenna hífi launin upp.“

Að stjórna tækjum eða börnum

Þegar horft er til heildarlauna þeirra sem þátt tóku miðað við 100% starf námu þau 545 þúsund krónum árið 2021. Karlmenn reyndust með hærri heildarlaun, eða 617 þúsund krónur og konur 525 þúsund krónur. Bílstjórar, tækjastjórar, véla- og vélgæslufólk hefur hæstu launin í hópi Einingarfélaga, 716 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Stuðningsfulltrúar, skólaliðar og leiðbeinendur eru með lægstu launin, 437 þúsund á mánuði að meðaltali.

Björn segir að könnunin gefi til kynna að þeir sem lægst hafi launin hafi fengið meiri launahækkun en þeir sem eru með hærri laun, en að því hafi verið stefnt með gerð lífskjarasamninganna. „Það er gleðilegt að sjá að þeir sem minnst hafa hækkað umfram hina, líkt og tilgangurinn var með gerð síðustu samninga.“

/MÞÞ


Athugasemdir

Nýjast