Könnun meðal drengja á miðstigi á Akureyri

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Norðurorka sá ástæðu til að styrkja undirritaða til að kanna stöðu drengja í skólum á Akureyri. Þakka þeim. Um 200 drengir tóku þátt í könnuninni og fá þeir mínar bestu þakkir. Ég þakka stjórnendum skólanna sem ég heimsótti sem og kennurunum.

Þegar lestrarfærni drengja ber á góma segja margir að sé lítið að marka fræðingana og því beri að spyrja drengina sjálfa. Það hef ég gert.

Drengirnir máttu sleppa spurningum ef þeim hugnaðist ekki að svara en gátu samt klárað.

Leiðist og heimanám

Það vakti athygli mína hve mörgum drengjum leiðist í skólanum. Um 26 % þeirra svara að þeim leiðist. Einn af hverjum fjórum. Ekki var fylgni á milli þeirra sem leiðist og þeirra sem líður illa en um 17% drengja svöruðu því til að þeim liði illa í skólanum. Fjöldi þeirra er of mikill að mínu mati og æskilegt að skólafólk finni drengina til að skoða hvað veldur. Kannski er lausnin einföld. Aldrei er það svo að öllum er gert til hæfis, það vita allir.

Um 40% drengja svöruðu að þeir fái litla eða enga hjálp með heimanám í skólanum og 46% fá enga eða litla aðstoð heima. Áhöld eru um hvort heimanám eigi að vera eður ei. Nokkrir skólar senda heimavinnu með heim ef nemandi nær ekki að klára í skólanum. Stjórnendur ættu að skoða hvort bjóða eigi heimanámsstoð á miðstigi eins og á unglingastigi.

Margir velta vöngum yfir hvort skólar bæjarins ættu að hafa sömu stefnu hvað heimanám varðar, tek ekki afstöðu til þess. Eitt ber að hafa í huga, framhaldsskólar krefjast heimavinnu sem og háskólar. Markmið grunnskóla er að búa nemendur undir það sem koma skal, því væri gott fyrir hvern nemanda að þekkja heimanám og kunna að læra heima.

Fögin í skólanum

Drengir á miðstigi vilja valgreinar. Rúmlega 92% drengja sögðu já þegar spurt var hvort þeir vilji valgreinar. Síðuskóli greip boltann á lofti.  Farið var af stað með tilraunaverkefni fyrir skólalok 2021 og boðið upp á valfög. Kennarar lyftu Grettistaki við framkvæmdina og stjórnendur jákvæðir. Almenn ánægja var með framkvæmdina. Í kjölfarið eru valgreinar í Síðuskóla skólaárið 2021-2022 fyrir nemendur á miðstigi.

Þegar drengirnir voru beðnir að nefna þrjú skemmtilegustu fögin kom ekki á óvart að verkgreinar eru meðal þeirra vinsælustu. Íþróttir eru vinsælastar, hreyfingin. Heimilisfræði er fag sem kemur næst oftast fyrir í svari þeirra sem og stærðfræðin. Mikilvægt er að viðhalda áhuga nemenda á stærðfræði en stundum dalar áhuginn þegar á unglingastig er komið. Nota þarf fjölbreyttar aðferðir til að kenna stærðfræði m.a. verklega. Fái nemendur að vinna stærðfræði í höndunum gæti það aukið enn frekar áhugann og viðhaldið honum.

Hve fáir nefndu upplýsingatækni sem skemmtilegt fag kom mér á óvart. Fáum drengjum finnst hún skemmtileg. Hér er um að ræða kynslóð sem alin er upp með tölvum og tækni. Gera skólar eitthvað rangt í tengslum við kennslu í upplýsingatækni? Fátt um svör þegar stórt er spurt. Samþætting annarra námsgreina við upplýsingatæknina virðist ekki gefa góða raun þegar áhuginn er annars vegar. Spyrja má hvort nemendur merki að þeir vinni með upplýsingatækni og það sem hún hefur upp á að bjóða þegar námsgreinar eru samþættar, s.s. íslenska og upplýsingatækni. Velta má vöngum yfir hvaða kennari á að kenna nemendum á flýtitakka lyklaborðsins, á hjálparforrit, siðferði í netheimum svo eitthvað sé nefnt. Væri upplýsingatæknikennari í skólum má gera ráð fyrir námsefnið komist betur til skila og á markvissari hátt en þegar margir kennarar kenna upplýsingatækni. Svör strákanna er kannski tilefni til að endurskoða kennslu í upplýsingatækni, því hún er alls ráðandi þegar í framhaldsnám er komið. 

Lestur

Þegar spurt var hvort drengirnir hafi gaman af lestri svöruðu um 55% já. Þrátt fyrir þessar góður tölur finnst um 45% þeirra ekki gaman að lesa. Slæmt þegar hugsað er til skólabókanna sem krefjast lesturs. Margir svöruðu því til að þeir læsu meira ef efnið vekti áhuga þeirra. Sama gildir um fullorðna, þeir velja lesefni sem þeim finnst skemmtilegt. Stundum þarf að gera annað en það sem skemmtilegt, líka í skólanum. Spurning hvort  grunnskólakennarar geti oftar valið námsefni með tilliti áhuga nemenda í einhverjum fögum. Engin töfralausn er til, en leggist kennarar, foreldrar og nemendur á eitt væri möguleiki á að auka áhuga drengja á lestri. Bestu þjálfararnir í lestri barna eru foreldrarnir og í reynd þeir einu. Taki þeir hlutverk sitt ekki alvarlega getur það leitt til áhugaleysi og slakrar lestrargetu barns.

Minntir á og lesskilningur

Langflestir eru minntir á að lesa heima samkvæmt svörunum, en áminningin skilar sér ekki í lestri. Þegar spurt var hve oft drengirnir lesa heima kemur í ljós að um helmingur þeirra lesa einu sinni til tvisvar í viku eða sjaldnar. Nemendur á miðstigi eiga að lesa á hverjum degi til að viðhalda hæfni, færi og þjálfun í lestri. Foreldrar eru þjálfarar í þeirri grein og enginn getur tekið ábyrgðina frá þeim. Flestir vita að skólarnir hafa ekki mannafla í að láta alla nemendur lesa eins og þarf til að verða góður lesari. Foreldrar, takið þessa ábyrgð alvarlega því vel læst barn á auðveldara með námið. Á yngsta stigi fer lestrarkennsla fram en þjálfunin á að standa yfir í nokkur ár, rétt eins hver önnur tómstundariðkun. Enginn kemur í stað foreldranna þegar lesþjálfun er annars vegar.

Þegar spurt var um mat á lesskilningi segja 78 drengir af 190 hann sæmilegan og lélegan. Hlutfallið er hátt því verður ekki neitað. Ljóst að hér þarf hver og einn skóli að líta í eigin barm og finna hvaða aðferðir henta best til að auka lesskilning. Þegar á unglingastig kemur þyngist þrautin og slæmt ef drengir hafa lélegan lesskilning. Heftir þá í námi.

Auka vægi hreyfingar

Langflestir vilja auka hreyfingu í skólanum. Að meðaltali telja drengirnir 103 mínútur hæfilegar á dag. Árið 2014 var hreyfing nemenda aukin í Danmörku, gerð að skyldu í skólastarfinu. Framkvæmdin er í höndum umsjónarkennara, að koma hreyfingu fyrir í töflu með t.d. samþættingu námsgreina. Margir nota alls konar hreyfileiki og útikennslu til að mæta breytingunum. Að sjálfsögðu tók smá tíma að slípa fyrirkomulagið en í dag heyri ég á dönskum kollegum að þeir eru sáttari með fyrirkomulagið.

Lengd kennslustunda er að meðaltali 80 mínútur og finnst drengjum það hæfilegt. Við skipulag langra kennslustunda þarf að gæta að hreyfingu nemenda, skipta um verkefni og passa að nemendur sitji ekki of lengi við sömu iðju. Það þreytir sál og líkama. Enginn skóli á að bjóða barni lengri samfellda kennslu en 80 mín og síðan 15 mínútur í hreyfingu eða útivist.

Þemadagar hugnast flestum enda oft skemmtilegt uppbrot. Annars konar nám á sér stað og í mörgum skólum er farið út til að sinna margs konar verkefnum.

Hrós

Mikið er talað um hrós í samfélaginu. Um 63% drengja sögðu að þeim væri sjaldan eða ekki hrósað í skólanum. Um 42% upplifa að þeir voru skammaðir í skólanum. Við megum ekki gleyma að hér er um upplifun þeirra að ræða og því má spyrja, hvað getum við gert til að breyta upplifuninni. Skólafólk þarf að líta í eigin barm og skoða hvort þetta getur staðist. Ef svo, þarf að taka sig á. Hrós er mikilvægt um það deilir enginn en að sjálfsögðu verður viðkomandi að vinna fyrir hrósi.

Lyfjanotkun

Svarið sem vakti mesta athygli mína var um lyfjanotkun. Spurt var hvort viðkomandi tæki lyf við ofvirkni, athyglisbrest, kvíða eða svefnleysi. Svarmöguleikinn var já eða nei. Ekki var um frekari flokkun að ræða. Hlutfall drengja sem svöruðu já er nærri 28%. Þyngra en tárum taki að nærri þriðji hver drengur taki hegðunarlyf. Hér má kalla eftir viðbrögðum lækna, ef satt reynist. Þessi tala er svipuð og opinberar tölur um lyfjanotkun barna á landinu. Lyfjanotkun barna eykst ár frá ári.

Er ekki kominn tími á fræðslu m.a. frá læknum, taugasálfræðingum og geðlæknum til foreldra um áhrif lyfjanotkunar á vöxt og heilastarfsemi barna, aukaverkanir og ávanabindingu lyfja. Okkar keppikefli hlýtur að vera að draga úr lyfjanotkun barna með öllum tiltækum ráðum og nota önnur úrræði. Sveitarfélagið ber þar helst ábyrgð, að bjóða upp á viðeigandi úrræði. Misbrestur á því eins og alþjóð veit. Þegar þetta er sagt er höfundur meðvitaður um að margir þurfa á lyfjum að halda vegna t.d. ADHD og gerir ekki lítið úr því.

Breytt skólastarf

Margir kalla eftir breyttu skólastarfi og ekki að ástæðulausu. Mörgum finnst námsefni og kennsluhættir gamaldags. Ný skólastefna Akureyrarbæjar kveður á um annar konar vinnubrögð. Eins og venja er þegar skólinn er annars vegar eiga breytingar að gerast án kostnaðar. Ætli skólayfirvöld bæjarins að koma til móts við þarfir og óskir nemenda um breytt skólastarf þýðir ekki að leggja fram niðurskurðaráætlun, engin skólaþróun í því.

Ástæðulaust er að henda öllu því gamla. Blanda af gömlu og nýju er ákjósanlegt. Skólinn er eins og hver annar vinnustaður, stundum takast nemendur á við eitthvað skemmtilegt og leiðinlegt að þeirra mati, rétt eins og í lífinu sjálfu.

Helga Dögg Sverrisdóttir, B.Ed. M.Ed. M.Sc.


Athugasemdir

Nýjast