Kjarnaskógur eitt öflugasta lýðheilsumannvirki landsins

Svona var umhorfs í Kjarnaskógi fyrir rétt rúmri viku. Ekki algeng sjón í júní.  Myndir  Ingólfur Jó…
Svona var umhorfs í Kjarnaskógi fyrir rétt rúmri viku. Ekki algeng sjón í júní. Myndir Ingólfur Jóhannson

„Á stundum eins og verið hafa undanfarið, þegar skítviðri geisar og hundi er vart út sigandi  reiknar maður ekki með mikilli traffík hér í Kjarnaskógi en  raunin er allt önnur og undirstrikar samfélagsverðmætin,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyjafjarðar. Fjölmörg verkefni eru fram undan þegar „vetrarveðri“ um sumar slotar.

Hann segir að berlega komi í ljós þegar veður eru válynd hversu mikilvægt skógarskjólið sé  og hve verðmæt skógarafurðin sé því þá flykkist fólk í skóginn til að stunda heilsubótargöngur og hlaup, einfaldlega af því þar er í boði besta veðrið á svæðinu. Skógurinn virkilega dragi til sín þá sem vilja hreyfa sig

.

Göngugarpar flykkjast í skóginn þegar veður eru válynd. Þar er mesta skjólið að fá. 

Ingólfur segir marga útivistarmöguleika fyrir hendi á og við Akureyri og fólk duglegt að nýta sér það sem í boði er. Bæjaryfirvöld eigi hrós skilið fyrir að hafa unnið ötullega að því að efla þá möguleikar undanfarin ár.  Kjarnaskógur sé eitt öflugasta lýðheilsumannvirki landsins og mikilvægt fyrir sjálfsmynd og lífsgæði samfélagsins. Þangað sé fjölmargt að sækja, náttúrufegurð, afþreyingu, yndis upplifun, stíga með mismunandi erfiðleikastigi en að auki er aðgengi einkar gott og bæjarbúar fljótir að komast á staðinn.

Leiðir blautar og þola illa álag

Frost er nýfarið úr jörðu og flestir stígar að verða ágætlega færir fyrir gangandi og hjólandi umferð en veðurlag undanfarið geri að verkum að leiðir sem ekki eru malbornar eru blautar og þola illa álag.  „Við höfum sett viðvörunarmerki við nokkrar þeirra  og biðlum til fólks að hlífa þeim uns þær þorna sem ætti ekki að taka langan tíma nú þegar hlýnar.  Eigi menn engu að síður leið um er mikilvægt að fara ekki út fyrir slóð svo raskað svæði stækki ekki,“ segir Ingólfur og bætir við að í Kjarnaskógi sé að störfum öflugur starfsmaður á vegum Akureyrarbæjar sem vinnur hörðum höndum að lagfæringum og endurbótum. 

Á vegum Skógræktarfélagsins eru fjölmörg verkefni fram undan í sumar og segir Ingólfur þau mörg snúast um að sinna gestum, slá grasflatir, grisja trjálundi sem er eiflífðarverkefni, dytta þarf að mannvirkjum, leiksvæðum og stígum sem og að gera nýja.

Nýr stígur og fleiri verkefni á dagskrá

Meðal nýframkvæmdaverkefna nefnir hann gerð nýs göngu/hjólastígs frá Hamraafleggjara að sólúri, umhverfi snyrtinga við Kjarnakot verður endurbætt, ný verönd þar nýtist til móttöku og yndis fyrir hópa, og eflir inniaðstöðu sem fyrir er auk þess sem aðstaða verður settu upp til að þrífa og dytta að reiðhjólum en lengi hafi verið kallað eftir slíkri aðstöðu. Þá verður áfram unnið að uppbyggingu líkamsræktaraðstöðu í Kjarna Class og lögð lokahönd á leiksvæði á Kjarnavelli sem og sleðabrekku/samkomusvæði á Kjarnatúni.  Að öllum þessum verkefnum er unnið í samstarfi við Akureyrarbæ.

 Áfram er unnið að uppbyggingu líkamsræktaraðstöðu í Kjarna Class


Athugasemdir

Nýjast