Kiwanisfélagar færðu barnadeild FSA monitor að gjöf

Félagar í kiwanisklúbbum á Óðinssvæði, hafa fært barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri, monitor að gjöf. Um er að ræða tæki til að fylgjast með líðan barna á sjúkrastofunni inn á vakt. Tækið er komið í notkun en formleg afhending á því fór fram sl. laugardag, þegar fjölmargir kiwanisfélagar á svæðinu komu í heimsókn á deildina með gjafabréf.  

Sigfús Jóhannesson í Grímsey, fráfarandi svæðisstjóri, afhenti tækið formlega. Hann sagði að klúbbarnir hefðu áður stutt við bakið á FSA og að þeir myndu gera það áfram. Sigfús sagði að klúbbarnir ætluðu að færa deildinni annað svona tæki. Andrea Andrésdóttir yfirlæknir barnadeildar tók við gjafabréfinu og hún sagði við það tækifæri að þetta tæki kæmi í góðar þarfir. Á Óðinssvæði starfa sjö kiwanisklúbbar, frá Vopnafirði til Ólafsfjarðar. Klúbbarnir eru: Askja Vopnafirði, Kalbakur og Embla á Akureyri, Skjálfandi Húsavík, Grímur Grímsey, Súlur Ólafsfirði og Herðubreið Mývatnssveit.

Nýjast