KEA hættir við hótelbyggingu

Tölvuteiknuð mynd af KEA hóteli sem átti að rísa við Hafnarstræti. Ljóst er að ekkert verður af bygg…
Tölvuteiknuð mynd af KEA hóteli sem átti að rísa við Hafnarstræti. Ljóst er að ekkert verður af byggingu hótelsins. Mynd/KEA.

KEA hefur skilað lóðinni við Hafnarstræti 80 á Akureyri til bæjaryfirvalda og því verður ekki af byggingu hótels á lóðinni af hálfu félagsins. KEA hefur undanfarin ár áformað að reisa og leigja 150 herbergja hótel við Hafnarstræti 80 eða á svokallaðri Umferðarmiðstöðvarlóð.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir að ekki hafi skapast skilyrði fyrir því að áform félagsins á lóðinni gangi eftir eins og lagt var upp með. „Forsendur fyrir verkefninu hafa frá upphafi verið traustur hótelrekandi sem leigjandi og eðlileg lánsfjármögnun. Eins og mál hafa atvikast í ferðaþjónustunni á síðasta ári með falli WOW Air sem og aðstæðum á lánamarkaði að þá eru ekki forsendur fyrir því að hefja verkefnið á þessum tímapunkti,“ segir Halldór.

Hann segir ennfremur að bæjaryfirvöld á Akureyri hafi í haust ekki viljað veita félaginu frekari frest til að bíða betri ytri skilyrða til þess að hefja framkvæmdir á lóðinni og því ekki annað að gera en að skila lóðinni. Halldór segir það mikil vonbrigði. „Okkur þykir það leitt að ekki var skilningur á því að bíða með verkefnið vegna þessara erfiðu ytri skilyrða. En þetta er niðurstaðan og lítið við því að gera.“

Hann segir KEA hafa eytt miklum tíma og fjármunum í undirbúning þessa verkefnis. „Við vorum í samstarfi við aðra aðila tilbúin að leggja af stað í annarskonar uppbyggingu á lóðinni en það var ekki vilji til þess hjá bæjaryfirvöldum að breyta skipulagi og hefja þá vegferð,“ segir Halldór Jóhannsson.  


Athugasemdir

Nýjast