24. desember, 2007 - 16:26
Fréttir
Knattspyrnufélag Akureyrar, KA, fagnar 80 ára afmæli 8. janúar nk. og af því tilefni verður efnt til glæsilegs afmælisfagnaðar laugardaginn 12. janúar og er miðasala þegar hafin í KA-heimilinu. Á fundi bæjarráðs Akureyrar sl. fimmtudag, lét Baldvin H. Sigurðsson bæjarfulltrúi VG bóka, að vegna 80 ára afmælis KA, fer hann fram á að bæjarstjórn Akureyrar heiðri félagið með einhverjum hætti á þessum merku tímamótum í sögu þess, til dæmis með málþingi um íþróttir á Akureyri fyrr og nú. Einnig lagði Baldvin til að bæjarstjórn komi að mótun og marki sér stefnu fyrir bæjarfélagið um hvaða framtíðarsýn menn hafi til íþrótta almennt, gildi þeirra fyrir börn og fullorðna, fjölskyldur og samfélagið í heild.
Fyrr í mánuðinum voru afhentar viðurkenningar fyrir grasrótarviðburði ársins í knattspyrnu. Það eru KSÍ og UEFA sem veita þessar viðurkenningar árlega og fór afhendingin fram í höfuðstöðvum KSÍ. Það voru þeir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, og Guðlaugur Gunnarsson, starfsmaður mótadeildar KSÍ, sem afhentu viðurkenningarnar. KA fékk viðurkenningu fyrir N1 mótið sem er grasrótarviðburður ársins (Most valuable grassroots event). KA menn hafa haldið þetta mót fyrir 5. flokk karla með miklum glæsibrag í 21 ár. Mótið og umfang þess hefur vaxið mikið og á síðasta mót mættu 34 félög með 142 lið.