Jonna Jónborg Sigurðardóttir bæjarlistamaður Akureyrar 2024

Jonna mun í sumar setja upp 8 nýjar skreytingar á rusladalla bæjarins, 6 á Akureyri og eitt á hvorri…
Jonna mun í sumar setja upp 8 nýjar skreytingar á rusladalla bæjarins, 6 á Akureyri og eitt á hvorri eyju, Hrísey og Grímsey. Myndir Aðsendar

„Markmiðið er að færa listina út til fólksins. Koma með listina til þess í stað þess að það komi í ákveðna sali eða gallerí til að skoða listaverk,“ segir Jonna Jónborg Sigurðardóttir bæjarlistamaður á Akureyri árið 2024. Hún vinnur að undirbúningi sýningar sem nefnist Ferðalag. Það hefst nú á starfsàrinu og stendur í tvo mánuði. Einnig er hún á fullu við að hanna og útbúa svöng ruslatröll sem prýða munu nokkra rusladalla á Akureyri.

„Þetta var bara hugdetta sem ég fékk einhverju sinni,“ segir Jonna um tilurð næstu sýningar, Ferðalags. „Ég er byrjuð að undirbúa þá sýningu og er að sanka að mér gömlum ferðatöskum eins og voru notaðar á árum áður,“ segir hún og er þegar komin fjórar töskur í hús. „Ég bý síðan til 6 mismunandi listaverk, eitt í hverja tösku og þegar þetta ævintýri hefst vel ég 6 staði á Akureyri og trilla þangað með töskurnar, kem þeim fyrir og fólk getur skoðað listaverkið,“ segir hún um sýninguna.

Jonna hefur í hyggju að fara með ferðatöskurnar á vinnustaði eða þar sem búast má við að fólk sé á ferli, elliheimili og leikskóla koma til greina og í raun hvaða staður sem er. Hver taska verður viku í senn á hverjum stað og stendur Ferðalagið yfir í tvo mánuði þannig að gera má ráð fyrir að verkin fari víða. „Sýningarsalur verksins er taskan sjàlf og sá staður sem taskan er staðsett hverju sinni,“ segir hún. „Með þessu vona ég að ná til fólks sem alla jafna leggur ekki leið sína í gallerí eða listasöfn. Ég vona að fólki hafi gaman af og verkið lífgi upp á tilveru þess.“

Annað verkefni sem Jonna vinnur að og mun gefa bæjarlífinu á Akureyri lit á komandi sumri eru textílverk. Prjónaðir skúlptúrar sem mun prýða nokkrar rusladalla bæjarins, en undanfarin þrjú sumur hefur Jonna sett upp svöngu ruslaverurnar sem vakið hafa mikla athygli vegfarenda, m.a.  ferðamanna.

Nú vinnur hún að 8 nýjum verkum og verða 6 tunnur á Akureyri skreyttar, ein i Hrísey og ein i Grímsey. „Þetta verða svöng ruslatröll að þessu sinni,“ segir hún um sumarverkefnið og að það verði komið upp fyrir þjóðhátíðadaginn 17. júní. Hún setur upp svonefndan QR-kóða og þannig gefst jafnt heimamönnum sem ferðafólk kostur á að fara í göngutúr á milli rusladalla og næla sér í góðan göngutúr um leið og listaverkin eru skoðuð. „Og svo má auðvitað endilega fóðra þessi ruslatröll sem mest.“ Verkefnið í kringum rusladallana er styrkt af SSNE.

Jonna hefur undanfarin ár einbeitt sér að endurvinnslulistsköpun og nýtir allt sem hún fær upp í hendurnar, m.a. textíl. Hún segir fólk iðulega gauka að sér afgöngum, m.a. af garni og úr því skapar hún listaverk. Ruslatröllin eru úr lopa sem hún þæfir og þvær og segir þá fyrir vikið algjörlega tilbúna til að takast á við íslenskt sumarveður af öllu tagi.


Athugasemdir

Nýjast