Jón Þorvaldur skrifar um Vaðla- heiðargöng og umfjöllun FÍB

Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur á RHA, skrifar grein í Vikudag í gær og svo aðra á vef blaðsins, vikudagur.is - aðsendar greinar,  í dag, þar sem hann fjallar um Vaðlaheiðargöng. Í báðum greinum fjallar Jón Þorvaldur m.a. um umfjöllun Félags íslenskra bifreiðaeigenda um fyrirhuguð Vaðlaheiðargöng, sem hann segir vera áróðurskennda og uppskrúfaða.  

Í grein sinni á vef Vikudags fjallar Jón Þorvaldur um greiðsluvilja vegfarenda, auk þess sem hann rekur hvernig hlutirnir hafa þróast eftir að Hvalfjarðargöng voru tekin í notkun. "En nú kann einhver að spyrja hvort rétt sé að miða við breytingu almenns verðlags frá því að Hvalfjarðargöngin voru opnuð. Væri ekki réttara að horfa á bensínverð?  Hvað samsvaraði gjaldið fyrir staka ferð við opnun Hvalfjarðarganga 1998 mörgum lítrum af bensíni?  Á þessum tíma kostaði bensínlítrinn um 70 kr. og því samsvaraði 1.000 kr. í veggjald um 14 lítrum af bensíni. Reiknað á sparaðan km var gjaldið þriðjungur úr lítra. Ef vegfarendur um Vaðlaheiðargöng verða einnig tilbúnir að greiða þriðjung úr bensínlítra fyrir hvern sparaðan km þá ættu þeir að vera tilbúnir að greiða sem svarar 5 lítrum af bensíni eða um 1.100 kr fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng," segir Jón Þorvaldur. Einnig fer hann enn frekar yfir umfjöllun FÍB um málið.

Í grein sinni í Vikudegi í gær segir m.a: "Hver ástæðan getur verið fyrir því að FÍB ákveður að reyna að koma í veg fyrir gerð Vaðlaheiðarganga á þennan hátt er hulin ráðgáta. Hvernig getur félag sem kennir sig við þá Íslendinga sem eiga bíl, sem eru flestir fullorðnir einstaklingar á landinu, séð ástæðu til að setja sérstaka vinnu í baráttu gegn framkvæmd sem þessari? Framkvæmd sem mun ekki verða kostuð af almennum skatttekjum heldur veggjöldum og mun verða gríðarleg samgöngubót fyrir íslenska bifreiðaeigendur. Jafnvel þó allar áætlanir færu á versta veg og ríkið þyrfti eftir áratug að leggja framkvæmdinni til brot af stofnkostnaði þá er harla ólíklegt að það myndi hafa áhrif á hvort aðrar framkvæmdir kæmust á koppinn eða ekki. Vaðlaheiðargöng munu hins vegar verða þess valdandi að 2-3 milljarðar fara í launagreiðslur í því atvinnleysisástandi sem nú er."

Nýjast