Jón og Guðrún íshokkíleikmenn ársins

Þau Jón Benedikt Gíslason og Guðrún Kristín Blöndal hafa verið valin íshokkíleikmenn ársins í karla-og kvennaflokki, en bæði leika þau lykilhlutverk með meistaraflokki Skautafélags Akureyrar á Íslandsmótinu.

Jón Benedikt Gíslason er fæddur árið 1983 og er fyrirliði SA-Víkinga og fór fyrir sínu liði þegar það tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í spennandi úrslitakeppni gegn Birninum síðasta vor. Jón hefur einnig verið einn af lykilleikmönnum íslenska karlalandsliðsins síðasta áratuginn og ekki síst á heimsmeistaramótinu í vor þegar liðið tryggði sér bronsverðlaun í 2.deild, sem er besti árangur Íslands frá upphafi. Jón hefur spilað hokkí frá unga aldri og hefur æft og spilað í Kanada, Finnlandi og Kína þar sem hann var atvinnumaður.

Guðrún Kristín Blöndal er fædd árið 1976 og er fyrirliði kvennaliðs SA-Valkyrja og hefur verið lykilleikmaður kvennaliðs Skautafélags Akureyrar undanfarin ár. Guðrún átti mikin þátt í árangri liðsins á árinu þegar það tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í hreinum úrslitaleik gegn Birninum síðasta vor. Guðrún er jafnframt leikmaður íslenska kvennalandsliðsins og tekur nú þátt í undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Reykjavík vorið 2011.

Nýjast