Jólaföndur í skóginum

Hér má sjá handverk hjónanna Kolbeins og Lindu á einni sölusýningunni en þau hjón selja víðs vegar u…
Hér má sjá handverk hjónanna Kolbeins og Lindu á einni sölusýningunni en þau hjón selja víðs vegar um landið.

Kolbeinn Konráðsson er 52ja ára smiður, búsettur í Varmahlíð í Skagafirði. Þar hefur hann komið sér upp aðstöðu fyrir áhugamál sitt sem hann hefur þróað undanfarin ár en Kolbeinn býr til fallegar skálar, glös og jafnvel jólakarla og konur af öllum stærðum og gerðum, allt úr efnivið sem skógurinn í kringum hann gefur honum. Vikudagur spjallaði við Kolbein en viðtalið var unnið af nemendum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri og birtist fyrst í Jólablaði Vikudags.

Þarna verður til hvert meistarastykkið á fætur öðru og Kolbeinn og kona hans Linda Gunnarsdóttir, sem sér um að glæða jólafólkið lífi með fallegri málningu, hafa mátt hafa sig alla við að anna eftirspurn en óhætt er að segja að þessir einstöku munir rjúki út enda vinsælar gjafir og skraut á heimilið því engir tveir eru eins. Við settumst niður með Kolbeini og Lindu til að ræða hvernig þetta allt saman.

Hvenær byrjaðir þú á þessu Kolbeinn?

Ég byrjaði aðeins að renna samhliða smíðakennslu í kringum árið 2005-6. En árið 2009 keypti ég mér lítinn rennibekk og þá hófst þetta fyrir alvöru.   

Hvernig kviknaði áhuginn?
Hann kviknaði eiginlega árið 1983 þegar ég var í Ármúlaskóla. Smíðakennarinn þar, sem ég man ekki lengur nafnið á því miður, kom mér á bragðið, eins og stundum er sagt. Hjá honum komst ég fyrst í kynni við rennibekk og síðan hefur þetta blundað í mér. Ég kenndi svo smíðar í nokkur ár og þar komst ég aftur í tæri við rennibekk og þá vaknaði aftur áhuginn fyrir þessu.

Hvernig fer vinnslan fram?
Ef við tölum t.d. um birkið, þá byrjar þetta með því að maður verður sér út um trjábút, annað hvort hegg ég sjálfur niður tré, en nóg er af þeim garðinum mínum, eða fæ búta í skóginum í kring þegar verið er að grisja þar, svo eru hinir og þessir sem hafa samband við mig og bjóða mér trjábúta. Síðan þarf að þurrka bútinn, það er í það minnsta ár sem það tekur, fer eftir sverleika bolsins. Ég læt hann fyrst liggja utandyra í skjóli, í að minnsta kosti ár áður en ég tek hann inn og læt hann jafna sig þar í góðan tíma áður en ég fer að vinna úr honum, stundum er hann ekki orðinn nógu þurr til vinnslu og þá læt ég hann bíða aðeins lengur. Svo saga ég hann niður í hæfilega búta sem passa í rennibekkinn, síðan fer ég að renna og ræðst það mikið til af því hvernig trjábúturinn er hvernig munirnir verða. En það er alltaf gaman að vinna með svona lifandi efni.

Nú ferðist þið hjónin landshorna á milli til að sýna og selja munina. Hefur það gefist vel?

 Já það hefur gefist ágætlega, auðvitað misvel, en það eru allsstaðar mjög góðar viðtökur og virkilega gaman að koma á nýja staði, hitta annað handverksfólk og sjá hvað það er að fást við. Það er svo margt fólk sem er að gera góða og fallega hluti í handverki.

Hvernig er hægt að nálgast þessa muni?
Að mæta á markaði þar sem við erum að selja munina, hringja, eða hafa samband við mig á Facebook. Nóg er að slá upp nafninu mínu á Facebook, fara í myndir, og þar er hægt að skoða handverks-albúmin mín, en þau eru öll opin. Á þessum árstíma erum við hjónin með jólasveina, bæði staka og jólasveinapör ásamt öðrum munum. Það er gaman að geta þess að þegar kemur að þessum árstíma þá breytist heimili okkar hjóna í lítið jólasveina-verkstæði, því ég renni jólasveinana, kem með þá heim, og þá tekur konan mín við og málar á þá, ég hjálpa til en hún málar alla fínvinnuna. Það má sjá myndir af jólasveinunum inni á Facebook líka. Fyrir jólin höfum við einmitt fengið pantanir í gegnum Facebook, bæði af jólasveinum og birkiskálum, og sent út um allt land, en einnig nokkuð út fyrir landsteinana.

Við látum þetta verða lokaorðin og þökkum Kolbeini kærlega fyrir spjallið. Hægt er að hafa samband við hann á Facebook síðu hans undir nafninu Kolbeinn Konráðsson og í síma 8615955. 

Nýjast