11.desember - 18.desember - Tbl 50
Jökulsárhlaupið í 19. sinn á laugardag
Jökulsárhlaupið var haldið í 19. skipti laugardaginn 10. ágúst. Heldur var þungbúið í morgunsárið, smá súld og 5 stiga hiti. Fljótlega stytti þó upp og þegar líða tók á morguninn var komið hið ágætasta hlaupaveður og sólin lét meira segja sjá sig við verðalaunaafhendingu.
Uppselt var í hlaupið en skv. samkomulagi við Jökulsárþjóðgarð er hámarksfjöldi þátttakenda miðaður við 250. Nokkur afföll urðu á mætingu sem líklega má rekja að einhverju leiti til veðurs en alls lögðu 219 hlauparar af stað og náðu 216 að klára hlaupin.
Frá Dettifossi, alls 32,7 km., komu 87 hlauparar í mark. Bestum tíma í karlaflokki náði Jón Trausti Sigurðarson en hann kom í mark á tímanum 2:40:17 en fljótust kvenna var Eyrún Ösp Eyþórsdóttir sem var á tímanum 2:51:10
Í hlaupinu frá Hólmatungum sem er 21,2 km. náði Rut Ragnarsdóttir bestum tíma allra keppenda og kom á tímanum 1:53:01 en í karlaflokki var Heiðar Hrafn Halldórsson fyrstur í mark á tímanum 1:53:29. Alls komu 51 hlaupar í mark frá Hómatungum.
Í stystu vegalengdinni frá Hljóðaklettum (13 km) kom Magnús Finnsson fyrstur í mark á tímanum 59:47 en fyrst kvenna var Fanndís Ósk Björnsdóttir sem var á tímanum 1:06:48. Alls skiluðu sér 78 hlauparar í mark úr Hljóðaklettum.
Í hlaupinu í ár hljóp Pranava Rúnar Gígja, fulltrúi Sri Chinmoy Friðarhlaupsins með kyndil frá Dettifossi til minningar um Eymund Matthíasson sem sigraði í fyrsta Jökulsárhlaupinu 2004 og var honum vel fagnað.
Alls komu um 40 sjálfboðaliðar að hlaupinu í ár sem tókst í alla staði vel og eiga miklar
þakkir skyldar fyrir þeirra framlag.